Eldur kviknaði í einbýlishúsi í Garði í Suðurnesjabæ í gær og skemmdist húsið alveg að innan. Líklegt er talið að gleymst hafi að slökkva á eldavél, að sögn Eyþórs Rúnars Þórarinssonar, varðstjóra hjá brunavörnum Suðurnesja.
Hann bætir þó við að lögreglan eigi eftir að staðfesta eldsupptökin en hún fer með rannsókn málsins.
Tilkynnt var um eldinn um hálffimmleytið í gær og ekki var vitað hvort fólk væri þar innilokað. Eigendurnir voru staddir erlendis en talið var líklegt að sonur þeirra væri inni í húsinu. Um 20 mínútum eftir að lögreglan hóf leit í húsinu með aðstoð tveggja hópa reykkafara var ljóst að enginn var þar inni. Mikill hiti og lítið skyggni gerði reykköfurunum erfitt fyrir.
Alls komu 16 slökkviliðsmenn að verkefninu, þrír dælubílar og þrír sjúkrabílar. Mikill vindur gerði slökkvistarfinu erfitt fyrir. Slökkvistarfi lauk um klukkan 21 og er húsið mjög illa farið eftir brunann.
Að sögn Eyþórs Rúnars er um þriggja hæða hús að ræða. „Eldurinn var búinn að krauma lengi og læsa sig í loftinu á allri hæðinni. Það myndaðist yfirtendrun og allar rúður brotnuðu mjög fljótlega eftir að við komum á vettvang. Það var orðið alelda innandyra,“ greinir hann frá.
Einn slökkviliðsmaður slasaðist minniháttar þegar hann skar sig á gleri og þurfti að sauma nokkur spor.
„Þetta var töluverður eldur og við vorum um þrjár klukkustundir á vettvangi að ná tökum á þessu. Það var mjög hvasst, sem var ekki að hjálpa okkur,“ segir Eyþór Rúnar.