Töluvert af eldingum laust niður úti fyrir Reykjanesi á milli klukkan sex og hálfátta í morgun.
Að sögn Eiríks Arnar Jóhannessonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, byrjaði ein og ein elding að mælast eftir miðnætti en á milli sex og hálfátta mældust um tíu slíkar.
Ástæðan fyrir þessu eldingaveðri er sú að kaldara loft er að koma yfir sjóinn í suðvestri og því fylgir óstöðuleiki sem orsakar uppstreymi.
„Þetta gerist alltaf við og við þegar það kemur kalt loft hérna sunnan við Grænland frá Kanada,“ segir Eiríkur Arnar.
Eldingarnar hafa eingöngu mælst fyrir utan landsteinana og því hefur ekki þótt ástæða til að vara fólk sérstaklega við þeim.
Núna hefur dregið úr líkum á eldingum og ólíklegt er að þær nái inn að landi.
Minnst var á eldingaveðrið á vefnum Bliku í morgun: