Gestkvæmt á Þórshöfn

Jón Gunnar segir dýrið laslegt en lögregla hefur nú strengt …
Jón Gunnar segir dýrið laslegt en lögregla hefur nú strengt lokunarborða umhverfis það. Ljósmynd/Jón Gunnar Geirdal

Rostungur einn heljarmikill liggur nú í makindum á flotbryggju Þórshafnar á Langanesi og lætur fátt raska stóískri ró sinni.

Hafnarvörðurinn Þorri Friðriksson var í hafnarskúrnum á bryggjunni þegar útgerðarmaðurinn Halldór Rúnar Stefánsson kom þar inn og tilkynnti um gest á flotbryggjunni, það var um áttaleytið í morgun. Trúlega er þetta rostungurinn Þór kominn í heimahöfn á Þórshöfn.

Halldór útgerðarmaður var á leið niður flotbryggjuna þungt hugsi og velti fyrir sér hvort hann ætti að leggja grásleppunetin sín eða ekki. Hann tók ekki eftir neinu fyrr en allt í einu reis stórt hrúgald upp fyrir framan hann og lokaði leiðinni að bátnum. Það var rostungurinn.

Beið með netin

„Líklega hefur hann komið til að segja mér að ekki væri tímabært að leggja, hann lokaði alveg leiðinni að bátnum. Ég komst hvort sem er ekki að bátnum svo ég bíð með að leggja netin og tek bara mark á Þór,“ segir Halldór.

Lögregla og hafnarvörður hafa nú tryggt svæðið umhverfis rostunginn og girt hann af með borðum.

Gesturinn liggur á bryggjunni en Jón Gunnar Geirdal segir hann …
Gesturinn liggur á bryggjunni en Jón Gunnar Geirdal segir hann þó hafa brugðist við fólki í umhverfi sínu áður en lögregla girti hann af. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Dýrið er þó laslegt og virðist ekki heilt heilsu að sögn Jóns Gunnars Geirdal sem staddur er á Langanesi með fjölskyldunni á leið í skírnarveislu.

„Við fengum bara símtal í morgun um að það væri kominn rostungur upp á bryggju,“ segir Jón Gunnar í samtali við mbl.is, „hann liggur bara hérna, býsna laslegur, menn eru að giska á að þetta sé sá sami og sást á Breiðdalsvík um daginn. Hann liggur bara hérna og er afskaplega þreyttur greyið, það hefur tekið á greinilega að komast hingað á Langanes og upp á bryggjuna,“ segir hann enn fremur.

Jón Gunnar segir menn velta því fyrir sér hvort hér …
Jón Gunnar segir menn velta því fyrir sér hvort hér sé komið sama dýr og sást til á Breiðdalsvík í febrúar. Ljósmynd/Jón Gunnar Geirdal

Rostungurinn bregðist þó við fólki í næsta umhverfi sínu, „hann hreyfði sig eftir því sem fólk fór nær honum áðan en löggan er núna búin að strengja hérna gult band aðeins ofar á flotbryggjunni og loka af til öryggis, það er náttúrulega engin smá stærð á þessu og auk þess með tvær vígalegar tennur sem geta rifið sig gegnum hvað sem er. Þetta er náttúrulega bara ævintýri fyrir heimamenn og gesti, það er alveg frábært að sjá svona skepnu,“ segir Jón Gunnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert