Systkini sameinuð á ný eftir 97 ár

Heimir Björn Janusarson fræðir gesti um gröf Ólafar skáldkonu frá …
Heimir Björn Janusarson fræðir gesti um gröf Ólafar skáldkonu frá Hlöðum í Hólavallagarði. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki átta allir sig á því að Hólavallagarður í Reykjavík er enn virkur kirkjugarður. Að sögn Heimis Björns Janusarsonar, umsjónarmanns með garðinum, eru á bilinu 30 til 40 duftker jarðsett ár hvert í fjölskyldugrafreitum sem líta má á sem eina útgáfu af þéttingu byggðar. Á síðasta ári var svo 102 ára gömul kona lögð til hinstu hvílu í kistu sinni – við hlið bróður síns sem látist hafði í bernsku 97 árum áður.

Þetta kemur fram í spjalli við Heimi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en Árni Sæberg ljósmyndari slóst í för með honum á dögunum þegar umsjónarmaðurinn rölti með hóp frá Endurmenntun Háskóla Íslands gegnum þennan merkilega garð.  

Heimir við gröf Steinunnar frá Sjöundá sem lést í tukthúsinu …
Heimir við gröf Steinunnar frá Sjöundá sem lést í tukthúsinu á Arnarhóli.  ​ mbl.is/Árni Sæberg


„Það er stefna Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma að opna og vekja athygli á görðunum og þá ekki síst Hólavallagarði sem listasafni og menningarverðmæti sem hann sannarlega er,“ segir Heimir.

Hópar af ýmsu tagi

Hann segir hópana sem til hans koma af ýmsu tagi, svo sem skólafólk, starfsmannafélög og saumaklúbba og mest sé jafnan að gera á vorin og haustin. Hann fer alltaf sömu leiðina um garðinn en brennipunkturinn og áherslur geta verið mismunandi eftir því hvernig liggur á Heimi hverju sinni eða hvernig hópurinn er samansettur. „Sumir hópar hafa mestan áhuga á bókmenntum, aðrir á gróðri og enn aðrir trúartáknum og hefðum,“ segir Heimir. „Einu sinni bauð ég upp á leiðsögn sem ég kallaði Hér hvílir ekkja – konur í manna minnum, sem var mjög skemmtilegt þema. Margir fengu sjokk vegna þess hversu lítið var á sínum tíma gert úr hlut kvenna og þær til dæmis sjaldan upprunavottaðar, eins og tíðkast um karlana. Ég get nefnt Jón Sigurðsson forseta sem dæmi en á legsteini hans kemur fram að landar hans hafi reist honum stein þennan. Ekkert er hins vegar minnst á frú Ingibjörgu.“

Hólavallagarður er þekktur fyrir fallegan trjágróður.
Hólavallagarður er þekktur fyrir fallegan trjágróður. mbl.is/Árni Sæberg


Heimir leggur áherslu á fjölbreytni í leiðsögn sinni. „Ekki er langt síðan ég fékk sömu konuna tvisvar, með sitt hvorum hópnum, og hún hafði orð á því hvað upplifunin hefði verið ólík. Það segir margt um garðinn; hvað hann er djúpur og flókinn. Gangan tekur 90 mínútur og maður nær bara að skoða takmarkaða sögu hverju sinni.“

Nánar er rætt við Heimi og fleiri ljósmyndir birtar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert