Þetta er allur tilfinningaskalinn

Ragnhildur Steinunn gerði þátt um tvíbura og hefst hann á …
Ragnhildur Steinunn gerði þátt um tvíbura og hefst hann á annan í páskum. Hér sést hún með tvíburum sem koma fram í þáttunum.

Þættirnir Tvíburar eru sex talsins og fjallað er um tvíbura frá öllum hliðum; líffræðilegum, erfðafræðilegum, félagslegum og síðast en ekki síst tilfinningalegum.

Umfram allt magnað

„Í fyrsta þætti sýnum við tvíburafæðingu en þetta verður í fyrsta sinn sem það er gert í íslensku sjónvarpi. Það verður bæði átakanlegt, erfitt en umfram allt magnað. Ég er viss um að fólk á eftir að upplifa alls konar tilfinningar; ótta, hugrekki, stress, samkennd, hræðsu og þakklæti. Þetta er allur tilfinningaskalinn,“ segir Ragnhildur og tekur fram að það hafi ekki gengið þrautalaust að finna par sem væri tilbúið að leyfa myndatöku í tvíburafæðingu. Ekki gerði kórónuveiran þeim lífið léttara heldur.

„Ég spurði örugglega hátt í þrjátíu pör áður en ég fékk já, en svo misstum við af fjórum fæðingum vegna Covid. Það mátti enginn fara inn á spítalann og ég þurfti þá að finna nýtt fólk,“ segir hún og segir að í eitt skipti hafi hún og tökumaðurinn bókstaflega staðið fyrir utan fæðingarstofuna þegar aðstæður breyttust skyndilega og hætt var við að hleypa þeim inn. „Það var auðvitað mjög svekkjandi en öryggið er alltaf í fyrirrúmi.“

Búa til sitt eigið tungumál

Oft er rætt um sterk tilfinningatengsl á milli tvíbura, og skoðar Ragnhildur það í Tvíburum.

„Margir tvíburar segja frá því að þeir hafi lent í að kaupa sömu sömu gjafirnar hvor fyrir annan,“ segir hún og minnist svo á að það sé líka gaman að sjá hve sterk samkenndin er á meðal tvíbura frá unga aldri.

Ragnhildur Steinunn og eiginmaður hennar Haukur Ingi eiga tvíburana Tind …
Ragnhildur Steinunn og eiginmaður hennar Haukur Ingi eiga tvíburana Tind og Storm sem nú eru fjögurra ára.

„Ef annar tvíburinn minn fær kexköku biður hann alltaf um aðra fyrir bróður sinn. Svo er magnað að margir tvíburar virðast búa til sitt eigið tungumál á meðan þeir ná fullum tökum tungumálinu. Tvíburarnir skilja þá hvor annan með alls konar hljóðum og bullorðum.“

Ítarlegt viðtal er við Ragnhildi Steinunni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert