„Við þekkjum náttúruhamfarirnar en við ýtum alltaf öllu því sem varðar ytra öryggi okkar á hermálasviðinu einhvern veginn frá okkur og segjum þetta er eitthvað sem við þurfum ekkert að hugsa um.“
Þetta er mat Björns Bjarnasonar, fyrrum dómsmálaráðherra en nú er aðgengilegt á mbl.is ítarlegt viðtal við hann um öryggis- og varnarmál hér á landi. Tekur hann undir margt af því sem fram kemur í öðru viðtali á sama vettvangi við Arnór Sigurjónsson, fyrrum hermálafulltrúa Íslands hjá NATO. Þar fullyrðir Arnór að Íslendingar hafi engan möguleika á því að taka til varna, ef landið verður fyrir fyrirvaralausri árás sem skilgreina megi sem hermdar- eða hryðjuverk.
Björn segir að Íslendingar hafi byggt upp viðbúnað þegar kemur að náttúruhamförum og vísar þar til nýlegra atburða á Austfjörðum.
„Hvað þarf að gerast? Biðum við? Það liðu 12 ár frá því að varðskipið kom þar til reyndi á þennan þátt í því en varðskipið var hannað með hliðsjón af snjóflóðunum á Flateyri og þeim sem höfðu orðið áður en ákvörðun var tekin um að byggja skipið árið 2006. Það var tekið inn í hönnun skipsins reynslan sem við höfðum af því hvað gæti gerst og skipið er vararafstöð, það er slysavarðstofa, það er jafn mikill stjórnbúnaður í skipinu og í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð [...]“
Bendir Björn á að hugmyndir hafi komið fram á síðustu árum um að selja varðskipið Þór úr landi, þar sem ekki sé þörf fyrir það í landinu. Sama umræða hafi skotið upp kollinum þegar tillaga um að selja flugvél Landhelgisgæslunnar var kynnt fyrr á þessu ári. Björn segir tómt mál að tala um að hægt sé að útvega búnað af þessu tagi til landsins þegar hamfarir verði. Íslendingar verði að taka ábyrgð á eigin málum. Slíkt hið sama eigi við á sviði varnarmála.
Hann hefur þó áhyggjur af því að íslenskt stjórnkerfi hafi ekki burði til þess að takast á við viðfangsefni af þessari stærðargráðu.
Viðtalið við Björn má sjá og heyra í heild sinni hér:
Viðtalið við Arnór má sjá og heyra í heild sinni hér: