Virðast ekki hafa skoðað veðurspána

Frauðplastplötur fuku frá byggingarsvæði á Bæjarhálsi í óveðrinu í gær.
Frauðplastplötur fuku frá byggingarsvæði á Bæjarhálsi í óveðrinu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Björgunarsveitum bárust 96 aðstoðarbeiðnir og um 60 björgunarsveitarmenn voru kallaðir til á höfuðborgarsvæðinu vegna óveðursins á suðvesturhorni landsins í gær.

„Þetta byrjaði rólega um klukkan tvö með einni aðstoðarbeiðni,“ sagði Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við Morgunblaðið. Allar sveitir voru komnar heim um áttaleytið í gærkvöldi.

„Það var áberandi hve mikið fauk af lausamunum frá byggingasvæðum. Það er kannski umhugsunarefni hvort verktakar almennt hafi ekki skoðað veðurspána fyrir þessa löngu helgi,“ sagði Jón Þór. Meðal annars fauk einangrunarplast, dúkar, þakplötur, klæðningarefni og annað byggingarefni frá byggingarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal í Árbænum, Vogunum, Vesturbæ og við byggingarreit nýs Landspítala við Hringbraut. Önnur útköll björgunarsveita tengdust því að fólk var búið að taka sumarútbúnað sinn úr vetrargeymslu, að sögn Jóns Þórs.

„Þetta voru hjólhýsi sem fóru á hliðina og splundruðust, fellihýsi að rifna upp og einhverjir bátar færðust til. Þó nokkur trampólín fóru á flug,“ sagði Jón Þór.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert