„Vona að hann fari aftur í sjóinn“

Spurning er hvort hér sé komið sama dýr og gerði …
Spurning er hvort hér sé komið sama dýr og gerði sig heimakomið á Breiðdalsvík í febrúar. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

„Hafnarvörðurinn hringdi nú bara í persónulega símann minn og lét mig vita að það væri rostungur á bryggjunni,“ segir Aron Björn Guðmundsson, lögregluvarðstjóri á Þórshöfn, um óvæntan páskagest sem birtist bæjarbúum og gestkomandi vegfarendum þar í morgun.

„Ég fór þá bara og lokaði bryggjunni af og tilkynnti héraðsdýralækni svo um rostunginn,“ heldur varðstjórinn áfram. Hann segir hefðbundið verklag að tilkynna Matvælastofnun um viðburði á borð við þennan en kveðst ekki hafa haft erindi sem erfiði við að ná sambandi við stofnunina um páskahátíðina miðja.

Vígtennurnar, höfuðútlitseinkenni þessara dýra, eru oft nálægt 50 sentimetrum að …
Vígtennurnar, höfuðútlitseinkenni þessara dýra, eru oft nálægt 50 sentimetrum að lengd en hafa þó mælst heill metri í sumum dýrum. Ljósmynd/Jón Gunnar Geirdal

Aron er einn á vaktinni en segir þau stundum tvö saman, „og svo erum við með góðan héra líka“, bætir hann við, en svo kallast héraðslögreglumenn í daglegu tali, það er afleysingamenn lögreglu sem ráðnir eru samkvæmt heimild í lögreglulögum til aukastarfa við löggæslu er þörf krefur.

Aron segir verkefni lögreglunnar á Þórshöfn hin fjölbreyttustu svo sem ráða má af komu rostungsins í morgun. Hann bíður þess nú að heyra meira af skipan mála vegna heimsóknarinnar, „en ég vona nú bara að hann fari aftur í sjóinn“, segir varðstjórinn og bætir því við að forvitnilegt væri að vita hvort þarna sé um sama dýr að ræða og sást á Breiðdalsvík í febrúar.

Hér má sjá nærumhverfi rostungsins þar sem hann liggur á …
Hér má sjá nærumhverfi rostungsins þar sem hann liggur á flotbryggjunni. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert