Á 170 km hraða á flótta undan lögreglu

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Hari

Tilkynnt var um mann að reyna að komast inn á stigagang í Árbænum og sagt að hann væri bæði æstur og óskiljanlegur. Lögreglan kom á vettvang en fann manninn ekki.

Stuttu síðar barst önnur tilkynning um að sami maður hefði komist inn á heimili í Árbænum, tekið þar bíllykla og ekið á brott á bifreiðinni.

Lögreglan mætti bifreiðinni og var manninum gefin merki um að stöðva akstur, sem hann gerði ekki og hófst þá eftirför. Hún hófst í Árbænum en lauk í miðbæ Reykjavíkur þar sem maðurinn var handtekinn.

Stórhættulegur akstur

Mikil umferð var á þessum tíma og var akstur hans stórhættulegur, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann ók á 140 til 170 km/klst þar sem hámarkshraði er 60 km/klst.

Maðurinn er einnig grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann gistir nú fangageymslu lögreglu.

Samtals gista átta manns í fangageymslum lögreglunnar eftir verkefni næturinnar.

Öskraði út í loftið

Tilkynnt var um að manneskja væri að skoða inn í bíla við verslunarmiðstöð í hverfi 103. Sagt var að hún væri æst og að öskra út í loftið.  Lögreglan ræddi við manneskjuna, sem fór sína leið eftir það, aðeins rólegri.

Tilkynning barst lögreglunni um líkamsárás í miðbænum. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.

Einnig var tilkynnt um aðila sem pantaði sér drykki á skemmtistað í miðbænum en neitað svo að borga. Hann kærður fyrir fjársvik.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að störfum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafskútuslys varð í miðbæ Reykjavíkur. Sá sem var á hjólinu hafði dottið af því og hlaut hann minniháttar áverka á andliti. Hann var fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar.

Húsráðendur „í góðum gír“

Í hverfi 220 í Hafnarfirði var tilkynnt um hávaða að berast frá íbúð. Lögreglan fór á vettvang og voru húsráðendur þar „í góðum gír“ að hlusta á tónleika í sjónvarpinu. Þeir lofuðu að lækka.

Í sama hverfi var tilkynnt um hávaða úr samkvæmi og lofaði húsráðandi einnig að lækka tónlistina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert