Aukin hætta á flóðum og skriðuföllum

Það er gul viðvörun fyrir austan.
Það er gul viðvörun fyrir austan. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun tók gildi á Austfjörðum klukkan 6 í morgun og gildir hún til klukkan 12 á morgun. Á Suðausturlandi tók gul viðvörun gildi klukkan 7 í morgun og verður hún í gildi til klukkan 9 í fyrramálið.

Á báðum svæðum er spáð talsverðri rigningu og má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát.

Á Suðausturlandi verður mikil rigning um tíma austan Öræfa.

Mikilli úrkomu spáð

Í færslu á vef Veðurstofu Íslands sem birtist um miðjan dag í gær var spáð mikilli úrkomu á Suðausturlandi og á sunnanverðum Austfjörðum næstu tvo sólarhringa. „Samkvæmt veðurspánni gæti uppsöfnuð úrkoma gæti víða farið yfir 150 mm á næstu 48 klst. Úrkomuákefðinni er spáð mest um 5-10 mm á klst og hiti á bilinu 3-8°C. Frost er að fara úr efstu lögum jarðvegs en frost er víða undir og auðvelt fyrir yfirborð að mettast af vatni. Við slíkar aðstæður eykst hætta á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum,“ segir í færslunni.

Hlýjast á Norðvesturlandi

Veðurhorfinu á landinu eru annars þannig að spáð er austan- og suðaustan 13 til 20 metrum á sekúndu. Hvassast verður syðst og rigning með köflum. Talsverð eða mikil rigning verður suðaustantil, en þurrt norðanlands.

Hiti verður á bilinu 4 til 12 stig, hlýjast á Norðvesturlandi. Hægari vindur og þurrt um landið suðvestanvert í kvöld.

Á morgun verða austan 10-15 m/s, en hæg breytileg átt suðvestantil. Víða verður rigning og sumstaðar talsverð úrkoma suðaustanlands. Hæg suðvestlæg átt verður og skúrir sunnan- og vestantil annað kvöld. Kólnar heldur.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert