Fangi fannst látinn í fangelsinu á Hólmsheiði í gær. Páll Winkel fangelsismálastjóri staðfesti þetta við mbl.is.
„Við erum öll harmi slegin. Það var kallaður til prestur og áfallateymi eins og í öllum tilvikum þegar einstaklingur fellur frá í fangelsum landsins,“ segir Páll, en um karlmann var að ræða. Búið er að tala við aðstandendur hans.
Dánarorsök liggur ekki fyrir, en rannsókn er hafin hjá lögreglunni. Að sögn Páls fannst maðurinn látinn þegar klefarnir voru opnaðir í gærmorgun.
Þetta er fyrsta mannslátið á Hólmsheiði síðan fangelsið var tekið í notkun árið 2016.
„Þetta er högg fyrir alla, bæði fyrir vistmenn og starfsmenn,“ segir Páll.