Eldur kom upp í safnhaugi í Helluhverfinu í Hafnarfirði í gærkvöldi. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað á vettvang um tíuleytið og þá voru starfsmenn þegar byrjaðir að reyna að moka hauginn til, enda ekki óvanir slíkri vinnu, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Vegna þess hve tilkynningin barst fljótt var engin hætta á ferð og lauk slökkviliðið störfum á vettvangi um tvöleytið í nótt eftir að hafa kælt hauginn og mokað hann til.
Reglulega kemur fyrir að það kvikni í safnhaugum eða að mikill hiti myndist vegna rotnunar. Oft gerist þetta þegar timbur eða sag er í safnhaugum eða á urðunarstöðum.
Slökkviliðið fór annars í 94 sjúkraflutninga síðasta sólarhringinn, sem er vel yfir meðaltali, og átti áfengisneysla stóran þátt í mörgum þeirra, að sögn varðstjóra.