Gekk 238,9 km á skíðum á sólarhring

Andri Teitsson, hlaupa- og skíðagöngugarpur, sló Íslandsmet á föstudag.
Andri Teitsson, hlaupa- og skíðagöngugarpur, sló Íslandsmet á föstudag. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Andri Teitsson, hlaupa- og skíðagöngugarpur, gekk 238,9 kílómetra á skíðum á einum sólarhring og sló þar með Íslandsmet. Í þrjú ár hafði hann hugsað sér að reyna við metið, sem var 203 kílómetrar.

„Ég hafði alveg trú á því að ég gæti þetta en var náttúrulega dálítið stressaður,“ segir Andri í samtali við mbl.is. Hann gekk af stað klukkan ellefu á fimmtudagsmorgun og hafði lokið við 238,9 kílómetra sólarhring síðar. Það var fréttamiðillinn akureyri.net sem greindi fyrst frá afreki Andra.

„Rétti árstíminn, rétta skíðafærið og rétta veðrið“

Andri segir hugmyndina hafa kviknað fyrir þremur árum á tímum kórónuveirunnar þegar ólympíufararnir Albert Jónsson og Snorri Einarsson gengu tvöhundruð kílómetra.

„Þá voru ekki haldnar neinar keppnir þannig að fólk fór bara sjálft og fyrir ári síðan bætti ólympíufarinn Einar Ólafsson metið og gekk 203 kílómetra.

Ég var búinn að hugsa allan tímann að kannski gæti ég gert þetta líka og spá í því hvernig þetta væri hægt. Það þarf að vera rétti árstíminn, rétta skíðafærið og rétta veðrið og núna var tækifærið þannig að ég sló til.“

Andri undirbjó sig vel fyrir gönguna og var með fjögur …
Andri undirbjó sig vel fyrir gönguna og var með fjögur pör af skíðum tiltæk. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Einn um nóttina í myrkri og kulda

Andri er í mjög góðu hlaupaformi og gekk í 24 klukkustundir með fáum hléum.

„Ég tók nokkrum sinnum pásu, settist inn í skálann til að borða en annars voru engin hlé. Þetta var mjög erfitt, ég var þreyttur í líkamanum og höfðinu, sérstaklega eftir að vera einn þarna alla nóttina gangandi í myrkri og kulda.“

Andra leið mjög vel þegar göngunni lauk en hann segist þó hafa fundið fyrir þreytunni.

„Ég var með verk í handleggnum og það var búið að há mér allan seinni hlutann en að öðru leyti leið mér vel og hefði bara jafnvel getað haldið áfram í nokkra klukkutíma, svei mér þá.“

Andri undirbjó sig vel fyrir gönguna og var meðal annars með fjögur pör af skíðum tiltæk og nóg af nesti. Hann segir að aðstæður hafi heilt yfir verið góðar og hægur vindur hafi verið allan tímann.

„Fyrri daginn var sól og hlýtt og þá var ekki nógu gott rennsli, sem er óheppilegt, en það var frost um nóttina og betra rennsli og þá fór þetta að ganga betur.“

Andri gekk í 24 klukkustundir með fáum hléum.
Andri gekk í 24 klukkustundir með fáum hléum. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

„Mér leist eiginlega ekkert á þetta“

Hann segir að fimmtudagskvöldið hafa verið erfiðasti hluti göngunnar.

„Þá var ég búinn að vera að í svona tíu klukkutíma og búinn að vera að fara niður brekkur í hörðu og erfiðu færi. Ég var þreyttur og lafmóður og mér leist eiginlega ekkert á þetta. Þá tók ég pásu og fékk mér vel að borða og náði mér á strik aftur.“

Andri ásamt eiginkonu sinni, börnum og föður, þegar verkefninu var …
Andri ásamt eiginkonu sinni, börnum og föður, þegar verkefninu var lokið. Frá vinstri: Iðunn Andradóttir, Teitur Jónsson, Eir Andradóttir, Ás Teitur Andrason, Andri Teitsson, Askur Freyr Andrason og Auður Hörn Freysdóttir. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Andri segist að lokum vilja þakka öllum sem heimsóttu hann í fjallið meðan á göngunni stóð. Þá hefur hann fengið hlýjar kveðjur á samfélagsmiðlum.

„Það voru ótrúlega margir sem komu og sýndu þessu áhuga, ég átti ekki von á því. Margir gengu með mér einn kílómetra á gönguskíðum og sumir sem fara aldrei á skíði komu samt til að kíkja á mig og hvetja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert