Hlupu úr bílnum og upp á svið

Hljómsveitin Fókus, sigurvegarar Músíktilrauna í ár, hófu leik á föstudagskvöldið.
Hljómsveitin Fókus, sigurvegarar Músíktilrauna í ár, hófu leik á föstudagskvöldið. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

„Þetta gekk alveg eins og smurt á föstudaginn eins og við töluðum um þá,“ segir Örn Elías Guðmundsson, Mugison, þegar mbl.is falast eftir frásögn af tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður þetta árið. Þeir Kristján Freyr rokkstjóri ræddu við mbl.is á föstudaginn og ljóstruðu þar upp um þá herkænsku sína að flytja tónlistarfólk hátíðarinnar vestur með flugi á skírdag til að forðast skakkaföll vegna veðurs.

Þetta reyndist margborga sig og segir Mugison að úr því föstudagurinn, fyrra kvöldið, gekk svona lygilega vel hafi þeir félagar hlotið að mega þola einhver skakkaföll síðari daginn. „Og það var rétt, þá var náttúrulega flugi frestað og listamenn sem áttu að koma vestur með flugi á laugardaginn þurftu að keyra, til dæmis hljómsveitin Gróa, Ragga Gísla og „kó“ og hlutar annarra hljómsveita,“ segir Mugison frá.

Mugison kveðst ekki muna eftir öðrum eins mannfjölda inni í …
Mugison kveðst ekki muna eftir öðrum eins mannfjölda inni í skemmunni og telur aðsóknarmet hafa verið sett í ár. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Spennan hafi því legið í loftinu á meðan beðið var eftir laugardagshópnum og þar reyndist allt falla eins og flís við rass þegar upp var staðið. „Gróa átti að opna kvöldið hjá okkur klukkan átta og þær komu tuttugu mínútur yfir og beint úr bílnum, ég veit ekki hvort þær drápu á bílnum einu sinni,“ heldur hann áfram frásögn sinni af fyrsta dagskrárlið kvöldsins, „þær hlupu bara upp á svið og negldu þetta.“

Því hafi fylgt djúpstæð sælutilfinning að sjá fyrstu hljómsveitina á sviði og vita þar með að kvöldinu var bjargað.

Duttu inn í hliðarveruleika

Mugison kveður mætingu hafa verið mjög góða en þeirrar tölfræði þurfi að afla óbeint þar sem miðasölu er ekki til að dreifa, aðgangur að Aldrei fór ég suður er ókeypis. „En ég fékk að heyra það að við hefðum aldrei áður selt eins mikinn varning og eins mikinn mat og núna og mér finnst ég aldrei hafa séð jafn margt fólk inni í skemmunni – og fyrir utan skemmuna líka. Það var eiginlega bara jafn gaman þar. Þannig að mér finnst þetta vera enn eitt metið,“ segir viðmælandinn.

Stjórnendur hátíðarinnar stíga á svið, kynna veisluna fram undan og …
Stjórnendur hátíðarinnar stíga á svið, kynna veisluna fram undan og setja hátíðina á föstudaginn. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Hvað sem skakkaföllum í flugsamgöngum líður segir Mugison veður hafa verið eins og best yrði á kosið. „Hér voru einhverjir útlendingar sem fengu bara allan pakkann, spegilsléttan fjörðinn og norðurljósaævintýri vel inn í nóttina. Þetta var bara einhver hliðarveruleiki sem við duttum inn í þarna,“ segir Örn Elías Guðmundsson, Mugison, stofnandi og helsta driffjöður Aldrei fór ég suður, um gang mála á hátíðinni í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert