Hvernig vaeri thessi frett tha skrifud?

Rögnvaldur Ólafsson eðlisfræðingur.
Rögnvaldur Ólafsson eðlisfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Tungutæknilausnir á Íslandi má rekja aftur til ársins 1981 þegar Reiknistofnun Háskóla Íslands, Raunvísindastofnun og Marel stóðu frammi fyrir því að Æ, Ð og aðra íslenska stafi vantaði í tölvur sem menn voru þá að byrja að gera tilraunir með.

„Þá byrjaði bardaginn,“ segir dr. Rögnvaldur Ólafsson eðlisfræðingur, sem lengi kom að þessum málum og stofnaði Marel ásamt öðrum. „Erlendis þótti ýmsum eðlilegt að við losuðum okkur við þessa stafi úr okkar stafrófi en það kom auðvitað ekki til greina. Við gáfumst því ekki upp fyrr en íslensk textavinnsla lá fyrir,“ bætir hann við og dregur fram skýrslu sína frá téðu ári máli sínu til stuðnings. Eins gott thvi annars hefdum vid vaentanlega skrifad thessa setningu med thessum haetti nuna.

„Það var gott hjá forseta Íslands, menntamálaráðherra og forsvarsmönnum Almanna­róms að halda vestur í fyrra í þeim tilgangi að sannfæra OpenAI um að Ísland væri orðið maður með mönnum á þessu sviði en mér finnst eins og forsagan hafi gleymst. Þessi vinna byrjaði ekki þegar Almannarómur var settur á laggirnar og margir hafa lagt hönd á plóginn gegnum árin. En er það bara vegna þess að ég er orðinn gamall að mér finnst fortíðin skipta máli?“

Átakið hefur staðið allar götur síðan og Rögnvaldur, sem um tíma var vísindafulltrúi Íslands í Brüssel, segir grettistaki hafa verið lyft þegar Björn Bjarnason var menntamálaráðherra. „Björn hafði – og hefur ábyggilega enn – mikinn áhuga á þessum málum og metnað fyrir hönd íslenskunnar. Ég vann mikið fyrir Björn og það þýddi ekki að senda honum neitt bull. Maður marglas alla texta yfir áður en hann fékk þá senda. Þau vinnubrögð hafa nýst mér allar götur síðan. Ég les allt með „Björnsaugum“ og finn mál- og stafsetningarvillur á ótrúlegustu stöðum,“ segir Rögnvaldur sposkur.

Gjörbreytti öllu

Árið 1998 gerði Björn Rögnvald að ­formanni í starfshópi sem vinna átti skýrslu um tungu­tækni. Með honum í nefndinni voru ­Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, og Þor­geir Sigurðsson, rafmagnsverkfræðingur og íslenskufræðingur. „Hlutverk okkar var að meta stöðu íslenskunnar í hinum alþjóðlega heimi og til hvaða ráða þyrfti að grípa, meðal annars með hliðsjón af markaðsmálum og fjáröflun. Við settum upp markmið og mátum heildarkostnað. Þannig að unnið hefur verið að þessum málum af fullum krafti í meira en tuttugu ár.“

Rögnvaldur minnist þess að hafa skoðað dönsk málsöfn í Kaupmannahöfn á þessum tíma, sem voru allnokkur, en mjög lítið til hér heima. En farið var eftir ráðleggingum nefndarinnar og á næstu árum var veitt 133 milljónum króna í styrki til ýmissa verkefna tungutækni. Meistaranámi í tungutækni var komið á fót við Háskóla Íslands 2002. Rögnvaldur segir marga hafa notið góðs af þessu starfi, ekki síst Árnastofnun. „Þetta gjörbreytti öllu fyrir hana enda lá á þessum lausnum. Hefði ekki verið gripið til þessara aðgerða á þessum tíma stæðum við mun verr að vígi í dag.“

Nánar er rætt við Rögnvald um tungutækni og gervigreind í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert