Enginn slasaðist þegar maður ók á 170 kílómetra hraða á flótta undan lögreglu í gær, en skemmdir urðu á bifreiðinni.
Maðurinn hafði komist inn á heimili í Árbænum, tekið þar bíllykla og ekið brott á bifreiðinni.
„Það er náttúrulega alltaf þannig að þegar fólk er með svona háttsemi eins og þarna átti sér stað, akstur á margföldum hámarkshraða, þá hefur það alltaf mikla hættu í för með sér.
Hann ók á móti rauðu umferðarljósi nokkrum sinnum, þannig að það gefur augaleið að það er mikil hætta sem fylgir svona háttsemi,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Ásmundur hefur ekki upplýsingar um hvort maðurinn sé enn í haldi lögreglu, en segir að til hafi staðið að taka af honum skýrslu í dag.
„Sem betur fer slasaðist enginn í þessu athæfi en það voru klárlega skemmdir á bifreiðinni eftir þennan akstur.“