„Ég er búinn að halda sama tempói allan tímann síðan ég byrjaði klukkan fjögur á föstudaginn,“ segir Rúnar Símonarson sem hóf þá vegferð síðdegis á föstudaginn langa, klukkan fjögur að norskum tíma, tvö að íslenskum, að hjóla í tvo sólarhringa og safna áheitum til styrktar Píeta-samtökunum sem veita fyrstu hjálp, þjónustu, stuðning og meðferð þeim sem eru í sjálfsvígshættu.
Eins og Rúnar ræddi við mbl.is á þriðjudaginn tók systir hans, Rósa Hansen, líf sitt um páskana 2010 og vill Rúnar með hjólreiðaátaki sínu styrkja samtökin sem hann telur vinna mikilvægt starf.
Í stofunni hjá þeim Sigrúnu Haraldsdóttur í Tolvsrød-hverfinu í Tønsberg í Noregi er funheitt þegar Sigrún býður blaðamanni inn og til sætis í húsbóndastólnum. Það þykir heimilishundinum engin hæfa og urrar án afláts á aðkomumanninn en sleikir þó hönd hans í mesta bróðerni þegar hún er boðin fram.
Sjálfur situr húsbóndinn á þrekhjóli sínu og hefur setið í rúman sólarhring svo stóll hans er laus á meðan. Fyrir framan Rúnar er tölvuskjár sem sýnir veruleika í annarri vídd. Hjólreiðaforritið Zwift gerir áhugafólki um þessa góðu hreyfingu um gervallan heiminn kleift að hjóla saman í hópum eða eitt og sér eða bara hvernig sem hver kýs.
Rúnar útskýrir að hópur fólks hjóli einmitt honum til samlætis og bendir blaðamanni á býsna raunverulega – en þó tölvuteiknaða – hjólreiðamenn á vegi. Svo lunkið er forrit þetta við að skapa raunverulegar aðstæður að jafnvel er hægt að nýta kjölsog þeirra sem á undan eru við að létta eigin róður – eða hjólreiðar.
„Þetta byrjar þannig að maður þekkir ekkert marga en svo dettur maður inn í hópa eða klúbba og fer að hjóla með öðrum notendum,“ útskýrir Rúnar sem hjólar mest á þrekhjóli inni, enda veður, vindur og umferð þá hvergi nærri sem áhrifavaldar.
„Umferðin hérna er ekkert rosalega þægileg fyrir hjólandi, það er verið að snúa rúðupissinu og sprauta á hjólreiðamenn og fleira,“ segir Rúnar af þeim ríg milli hjólandi og akandi sem virðist vera alþjóðlegt fyrirbæri.
„Svo þegar maður er búinn að kynnast fólki í þessu getur maður boðið því í hitting og hjólað saman. Þetta virkar líka þannig að ef til dæmis fimm manns fara saman í hjólreiðatúr og þrír þeirra eru mjög sterkir og tveir byrjendur þá er hægt að stilla það þannig að þeir haldi alltaf hópinn sama hversu hratt þessir sterku hjóla, nema náttúrulega ef einhver stoppar alveg,“ heldur Rúnar áfram af þessari stafrænu töfraveröld og blaðamanni dettur í hug að þetta hljóti að virka svipað og forgjöf í golfi, sem hann þó hefur ekkert vit á.
Zwift-notendur geta valið sér þekktar slóðir og hjólað um London, París, New York, Skotland og fleiri staði eða haldið sig við algjörlega uppskáldaðan gerviheim Zwift sem Watopia heitir. Engin íslensk hjólreiðaleið hefur þó ratað inn í forritið enn sem komið er að sögn Rúnars. Kannski of mikið rok.
Sigrún játar að vera á kafi í sýndarveruleikahjólreiðum með sambýlismanni sínum, „ja, eða kannski ekki alveg á kafi“, bætir hún við gegnum kurrið í dýrinu sem brýst um í fangi hennar og mænir enn þungbúið á gestinn.
Þegar hér er komið sögu, um hálfsjöleytið í gærkvöldi að íslenskum tíma, hálfníu að norskum, hefur Rúnar setið á fáknum í tæpar 30 klukkustundir og á örfáa kílómetra ófarna í að vera kominn 700 slíka, svipaða vegalengd og akstur frá Kirkjubæjarklaustri til Ísafjarðar samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar. Hvernig hefur hann það?
„Ég er bara fínn,“ svarar Rúnar afslappaður en játar þó að sitjandinn sé örlítið farinn að láta finna fyrir sér. Hann reynir að haga máltíðum sínum þannig að hann borði „smám saman“ eins og hann orðar það. „Ég er svona alltaf að narta í eitthvað, banana eða flatbrauð með smjöri og sykri, en svo stoppa ég annað slagið og fæ mér almennilegan mat, pasta eða kjúkling, bara það sem er auðvelt að fá niður í magann og melta. Það er ekki mikið um rautt kjöt,“ segir hann og glottir við tönn.
Hann hefur engar upplýsingar um hve há upphæð hefur safnast inn á reikning Píeta-samtakanna síðan hann hóf hjólreiðarnar í gær en Rúnar notast einnig við söfnunarleiðina GoFundMe eins og það fyrirbæri heitir og þaðan berast honum upplýsingar jafnharðan og einhver styrkir átak hans.
Rúnar er kominn töluvert umfram það sem hann hefur mest hjólað í einni lotu fram til þessa sem voru 520 kílómetrar í október. „Ég var búinn að æfa fyrir það í nokkra mánuði og það var þá sem hugmyndin kviknaði – ég sagði nú reyndar engum frá því – að taka svona langan hjólatúr og styrkja eitthvað,“ segir Rúnar Símonarson að lokum, Akureyringur í Tønsberg sem styrkir Píeta-samtökin í minningu Rósu Hansen systur sinnar.
Við þessa iðju mun hann sitja á þrekhjóli sínu til klukkan tvö í dag að íslenskum tíma og þá vera búinn að hjóla í 48 klukkustundir. Miðað við glaðlegt og afslappað viðmót Rúnars um mitt kvöld í gær er fátt sem bendir til þess að hann nái ekki settu marki.
(Þess má geta að Rúnar var kominn yfir þúsund kílómetra og enn ekki af baki dottinn klukkan sjö í morgun, páskadag, að íslenskum tíma.)
Þeir sem vilja heita á Rúnar geta lagt beint inn á reikning samtakanna. Einnig er hægt að leggja söfnuninni lið á Gofundme.
Reikningur: 0301-26-041041
Kennitala: 410416-0690
Tilvísun: Rósa
Þeir sem vilja hjóla með Rúnari á Zwift geta fundið hann undir nafninu Runar Sim, en hann ætlar að hjóla leið sem heitir Tempus Fugit.
Ef þú glímir við sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.