Strengur slitnaði í Hölkná

Bilun kom upp í fjarskiptakerfi Mílu á Norðausturlandi við Bakkafjörð um tvöleytið í dag og er unnið að viðgerð. Um er að ræða strengslit í Hölkná og af þeim sökum eru aðstæður erfiðari.

„Eins og staðan er núna er ekki vitað hversu langan tíma viðgerðin mun taka. Þetta er í á sem gerir það að verkum að hún mun taka einhvern tíma,“ segir Sigurrós Jónsdóttir, samskipta- og markaðsstjóri Mílu, í samtali við mbl.is.

„Samstarfsaðilinn okkar á Austurlandi er á staðnum að gera bilanagreiningu.“

Hefur áhrif á fjarskipti á Bakkafirði

Um er að ræða streng sem liggur frá landshring og að þorpinu og segir Sigurrós að bilunin ætti ekki að hafa áhrif annars staðar en á Bakkafirði.

„Við getum ekki svarað fyrir þjónustuna sjálfa af því að við veitum hana ekki og erum bara með undirlagið, en mér skilst að þetta hafi áhrif á öll fjarskipti á Bakkafirði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert