Bað um aðstoð vegna dauðrar rottu

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar vegna dauðrar rottu í garði í hverfi 104 í Reykjavík um hálfsjöleytið í gærkvöldi.

Þeim sem óskaði eftir aðstoðinni var leiðbeint um viðeigandi ráðstöfun vegna rottunnar.

Sagðist vera nefbrotinn

Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi var óskað aðstoðar vegna líkamsárásar í miðbæ Reykjavíkur. Þar taldi sá sem tilkynnti um málið sig nefbrotinn eftir atlöguna, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fleiri líkamsárásir

Óskað var aðstoðar vegna annarrar líkamsárásar í miðbæ Reykjavíkur á tólfta tímanum í gærkvöldi.

Tilkynnt var um þriðju líkamsrárásina í Árbænum á níunda tímanum í gærkvöldi. Þar var einnig óskað aðstoðar vegna hótana.

Neitaði að greiða fyrir farið

Um ellefuleytið í gærkvöldi var óskað aðstoðar í Breiðholti vegna farþega leigubifreiðar sem neitaði að greiða fyrir farið. Maðurinn var kærður fyrir fjársvik.

Í sama hverfi var ökumaður handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna. Sá reyndist einnig sviptur ökuréttindum. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

Tveir ökumenn til viðbótar voru handteknir í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Annar í miðbæ Reykjavíkur og hinn í Kópavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert