Ein og hálf milljón króna hefur safnast fyrir fjölmiðlakonuna Eddu Falak í söfnun sem var sett af stað í tilefni af dómsmáli sem var höfðað gegn henni vegna meiðyrða.
Þar með hefur náðst að safna lágmarksupphæðinni sem miðað er við á síðunni Karolinafund til að hægt sé að fjármagna verkefnið. Enn eru ellefu dagar eftir af söfnuninni.
Tilgangur söfnunarinnar er að standa straum af kostnaði vegna áfrýjunar málsins til Landsréttar. Þar kemur einnig fram að 84 hafi lagt söfnuninni lið.
Edda laut í lægra haldi gegn móður sem kærði hana fyrir brot á friðhelgi einkalífsins, með því að spila hljóðupptöku af samskiptum mæðgna í hlaðvarpsþættinum Eigin konum. Voru móðurinni dæmdar 400 þúsund krónur í miskabætur auk þess sem Eddu var gert að greiða málskostnað, sem samsvaraði 900 þúsund krónum.