Hvar eru þessir strákar – fórnarlömbin?

Einn af hverjum sex ungum karlmönnum hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. „Hvar eru þessir strákar?“ spyr Sigrún Sigurðardóttir gestur Dagmála í dag.

Hún og Sigurþóra Bergsdóttir ræða félagssamtökin Bergið og þau mál sem þar er tekið á.

Þær segja þá ungu menn sem lent hafa í slíku áfalli oft glíma við sjálfsvígshugsanir og séu einnig líklegir til að leiðast út neyslu, eins og þekkt dæmi úr íslensku samfélagi sýni.

Fá alls konar mál á sitt borð

„Þessir strákar eiga sér enga rödd,“ segir Sigrún. „Þeir þurfa aðstoð.“

Algengasta dánarorsök ungra íslenskra karlmanna er ofneysla fíkniefna og sjálfsvíg. Bergið headspace eru félagasamtök sem taka opnum örmum við ungu fólki sem glímir við vandamál. 

„Við fáum alls konar mál inn til okkar. Frændinn sem er alltaf að leita á unga stúlku í jólaboðunum, ástarsorg og heimilisofbeldi,“ upplýsir hún.

Unga fólkinu líður sífellt verr

Þær segja rannsóknir staðfesta að unga fólkinu okkar líði illa og sú vanlíðan sé að aukast. Kerfið sem eigi að grípa ungt fólk sé of upptekið af greiningum og að koma fólki í kassa og gefa því stimpil áður en hægt er að veiða aðstoð. 

„Kannski þarftu bara ekki greiningu. Kannski er gott að byrja á að tala við okkur og þá kannski kemstu að því að það að tala um vandamálið eða upplifunina gerir mikið,“ segir Sigrún og talar þar til ungmenna.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert