Innheimtustofnun hafði viðurkennt kröfuna

Aldís Hilmarsdóttir er stjórn­ar­formaður Inn­heimtu­stofn­un­ar.
Aldís Hilmarsdóttir er stjórn­ar­formaður Inn­heimtu­stofn­un­ar. mbl.is/Árni Sæberg

Innheimtustofnun sveitarfélaga þarf að greiða fyrrverandi kvenkyns starfsmanni sínum rúmar nítján milljónir í bætur vegna 40 mánaða kynbundins launamunar.

Hérðsdómur Reykjavíkur dæmdi um þetta í síðustu viku.

Konan, sem starfaði sem lögfræðingur hjá Innheimtustofnun, fékk lægri mánaðarlaun en karlmaður sem sinnti sambærilegu starfi hjá stofnuninni.

Höfðu viðurkennt kröfuna

Al­dís Hilm­ars­dótt­ir, stjórn­ar­formaður Inn­heimtu­stofn­un­ar, segir að fyrrverandi forstjóri stofnunarinnar hafi ekki svarað kröfu konunnar. Segir Aldís að þegar ný stjórn hafi tekið við hafi málið verið skoðað.

Niðurstaða hinnar nýju stjórnar var að viðurkenna kröfu konunnar.

„Henni lá ósvarað hjá fyrri forstjóra. Við fórum og skoðuðum málið. Eftir skoðun þá féllumst við á þessa kröfu, að það væru ómálefnalegar ástæður fyrir þessum launamun,“ segir Aldís í samtali við mbl.is.

Dómurinn kom ekki á óvart

Þannig að þessi dómur kemur ekki á óvart?

„Nei. Við ætluðum að reyna að semja og borguðum henni 16,5 milljónir. Hún hafði viljað fá miskabætur og útreikning dráttarvaxta sem var öðruvísi en okkar lögfræðingur reiknaði. Við vildum að dómari myndi skera úr um það svo að við værum ekki að borga eitthvað úr opinberu fé sem okkur bæri ekki. Þannig að það snérist í raun bara það, en ekki efnislega um kröfuna,“ segir Aldís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert