Fréttaritari Morgunblaðsins og mbl.is í Vík í Mýrdal gekk fram á sjórekið nautkálfshræ í Víkurfjöru, skammt austan við Vík í Mýrdal, í gær og er þar komið líklega fjórða rekahræið undanfarnar vikur á svæði sem nær allt frá Markarfljóti í vestri að Víkurfjöru í austri. Önnur fundin hræ hafa verið af kúm.
Hjá lögreglunni á Suðurlandi fengust þær upplýsingar að henni hefði borist tilkynning um málið á fyrri stigum þess, þarna væri líkast til um hjörð að ræða sem hrakist hefði undan veðri og farið niður um vök á ísilagðri á og borist með henni til hafs.
Eins og verklagsreglur gerðu ráð fyrir hefði Matvælastofnun fengið tilkynningu um málið.