„Það er alltaf leiðinlegt og slæmt þegar leiðir skilur, ef svo verður, en það þarf ekkert að verða niðurstaðan, það eru félagsmenn Eflingar sem taka endanlega ákvörðun,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS).
Til stendur að halda félagsfund hjá Eflingu þar sem tillaga um úrsögn félagsins úr sambandinu verður lögð fyrir. Vilhjálmur segir ákvörðunina hafa komið sér á óvart.
„Þetta kemur mér mjög á óvart ef aðalástæðan á að vera að það hafi ekki verið samflot í síðustu kjarasamningum, en það var Efling sem tók ákvörðun um að skila ekki samningsumboði til Starfsgreinasambandsins og vera eitt og sér og þá niðurstöðu virði ég enda er það réttur hvers stéttarfélags.“
Hann segist hissa yfir fregnunum þar sem samstaða verkalýðshreyfingarinnar skipti gríðarlega miklu máli.
„Ef menn vilja samstöðu þá þurfa menn að meina eitthvað með því og vinna saman en það er greinilega ekki vilji til þess. Ég mun fylgjast spenntur með niðurstöðu og hvað hinn almenni félagsmaður segir, hvort hann telji þetta skynsamlegt eða ekki.“
Starfsgreinasambandið er stærsta landssambandið innan ASÍ og eru félagsmenn alls um 72 þúsund. Af þeim eru félagsmenn Eflingar um 44 prósent.
„Við myndum halda áfram að vinna þétt saman, þau landsbyggðarfélög sem eftir yrðu, ef þetta yrði niðurstaðan. Við yrðum samt sem áður gríðarstórt afl,“ segir Vilhjálmur.
Spurður hvort hann hyggist setja sig í samband við Sólveigu Önnu, formann Eflingar, segir hann:
„Við höfum svo sem ekki talað mikið saman undanfarnar vikur, en síminn hjá mér er alltaf opinn og ég myndi að sjálfsögðu taka samtal við hana ef hún hefði samband.“