Eggert Skúlason
„Ég er á því að við höfum bjargað nokkrum mannslífum,“ segir Sigurþóra Bergsdóttir framkvæmdastjóri félagssamtakanna Bergið headspace. Hún stofnaði Bergið eftir að hún missti son sinn úr sjálfsvígi árið 2016. Sigurþóra er gestur Dagmála í dag ásamt Sigrúnu Sigurðardóttir sem einnig kom að stofnuninni á sínum tíma.
Bergið vinnur með ungu fólki sem glímir við vanlíðan eða vandamál hvers konar. Samtökin eru lágþröskuldaþjónusta sem felur það í sér að engar tilvísanir þarf til að fá aðstoð eða tíma. Þjónustan er ókeypis og er einfaldast að fara á netið og þar er hægt að hafa beint samband við Bergið.
Sigurþóra og Sigrún segja að rannsóknir staðfesti að unga fólkinu okkar líður ekki vel og það ástand fari versnandi. Þær segja kerfið þungt í vöfum og víða reki ungt fólk og aðstandendur sig á biðlista eftir þeim úrræðum sem þó eru til staðar.
Þær eru sammála um að Bergið hafi bjargað mannslífum með samtölum við ungmenni í öngstræti. Samfélagsmiðlar geri líf ungmenna flóknara en áður var og það að geta rætt vandamálin og vanlíðanina geri oft mikið.
Hér fylgir með myndskeið úr þættinum þar sem Sigurþóra fer yfir hvernig Bergið var stofnað og þær ræða þörfina sem er mikil. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.