Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst alls 22 tilkynningar um líkamsárásir yfir páskana. Þar af voru tvær alvarlegar. Þá var lögregla kölluð til ellefu sinnum vegna heimilisofbeldis.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef lögreglunnar.
Í mörg horn var að líta um páskana hjá lögreglu. Alls voru 24 teknir fyrir að aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu. Um þriðjungur hafði verið sviptur ökuleyfi eða aldrei öðlast ökuréttindi. 20 umferðarslys og óhöpp voru enn fremur skráð.
Um páskana var líka nokkuð um innbrot, m.a. í fimm fyrirtæki og verslanir, þrjár geymslur, tvær bifreiðar og eitt heimili. Fjórum bifreiðum var stolið um páskana, en þær eru allar komnar í leitirnar.