Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, segir að stjórn og trúnaðarráð félagsins hafi samþykkt að boða til félagsfundar þar sem staða Eflingar innan Starfsgreinasambandsins verði rædd og tillaga borin upp um hvort boða eigi til allsherjaratkvæðagreiðslu um úrsögn.
Hún segir ríflegan meirihluta stjórnar hafa samþykkt tillöguna og að einróma niðurstaða vel sótts trúnaðarráðsfundar hafi verið að boðaður verði félagsfundur til að taka megi ákvörðun um málið. Félagsfundurinn verður haldinn í þar næstu viku og boðað verður til hans fljótlega.
Var einnig einhugur um málið í stjórn félagsins?
„Já, eins mikill einhugur og þar getur orðið,“ segir Sólveig.
Féllu einhver atkvæði í stjórn á móti tillögunni?
„Eins og ég segi. Ríflegur meirihluti stjórnar komst að þessari niðurstöðu,“ segir hún.
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, sem oft hefur farið gegn formanninum, sagðist í stuttu spjalli við mbl.is ekki hafa lagst gegn tillögunni. Hún sagðist í raun ekki vera fylgjandi henni en sé þó þeirrar skoðunar að félagsmenn eigi að fá að kjósa um hana.
„Ég er alltaf hlynnt því að kjósa um hluti. Ég hef ekki rosalega sterka skoðun á þessu en lagðist ekki gegn tillögunni. Það þarf að velta því fyrir sér hvort við viljum vera í þessu sambandi eða ekki,“ sagði Ólöf og hélt áfram.
„Þetta kom svo sem ekki mikið á óvart. Þetta hefur svolítið verið hugmyndin hjá Sólveigu í svolítinn tíma. Það verða félagsmennirnir sem ákveða þetta á endanum og félagsfundur sem ákveður hvort kosið verði um þetta, segir Ólöf Helga sem hvetur félagsmenn til að mæta og taka þátt í umræðunni.
Verði sú ákvörðun tekin á félagsfundi að boða til allsherjaratkvæðagreiðslu og að niðurstaða félagsfólks Eflingar verði að samþykkja úrsögn úr Starfsgreinasambandinu segir Sólveig Anna að aðild Eflingar að Alþýðusambandi Íslands standi eftir.
„Úrsögn Eflingar úr SGS leiðir ekki til þess að Efling hafi sagt sig úr Alþýðusambandinu. Heldur leiðir úrsögn Eflingar úr Starfsgreinasambandinu sjálfkrafa til beinnar aðildar.“
Sólveig segir að þetta sé niðurstaða félagsins eftir að hafa rýnt í lög ASÍ og innihald þeirra en þar vísar hún til ákvæða 17. gr. laganna. Hún segir jafnframt að afstaða forystu félagsins sé sú að Efling eigi að hafa sjálfstæða aðild að Alþýðusambandinu.
„Efling er annað stærsta félagið innan Alþýðusambandsins - risastórt félag. Nú eru félagsmenn 28 þúsund talsins. Við greiddum á síðasta ári 53 milljónir króna til Starfsgreinasambandsins. Við aftur á móti fáum enga þjónustu. Við rekum okkur sjálf.
Efling telur hagsmunum sínum betur komið utan Starfsgreinasambandsins. Efling telur eðlilegast og réttast að félagið sé með beina aðild að Alþýðusambandinu. Efling telur að þessar upphæðir nýtist betur í rekstur félagsins og til að þjónusta félagsfólks. Efling sækir enga þjónustu til Starfsgreinasambandsins.
Það hefur lengi verið til umræðu innan Eflingar að segja sig úr Starfsgreinasambandinu fyrir minn tíma. Efling hefur ekki skilað inn samningsumboði til Starfsgreinasambandsins nokkurn tímann að ég held.
Eftir því sem ég best veit þá voru einhver af þeim félögum sem gengu inn í Eflingu með sjálfstæða aðild að Alþýðusambandinu.“
Hvað ef Alþýðusambandið lítur svo á að ekki verði sjálfkrafa um beina aðild Eflingar að ræða við úrsögn?
„Verði það afstaðan þá sækir Efling einfaldlega um beina aðild að ASÍ. við höfum skoðað þetta mál mjög ítarlega og það er ekkert sem bendir til annars en það yrði einfalt. Þar þarf félagið einfaldlega að uppfylla viss skilyrði sem það sannarlega gerir.
Með því að skoða lög Alþýðusambandsins er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að sjálfstæð aðild að Alþýðusambandinu standi eftir verði af úrsögn úr SGS,“ segir Sólveig.
Voru sjónarmið rædd í annað hvort stjórn eða trúnaðarráði um samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar?
„Efling getur og er auðvitað tilbúin til að mynda bandalög við þau landssambönd sem vilja mynda bandalög við Eflingu. Þannig hefur það ávallt verið eftir að ég tók hér við formennsku árið 2018. Í lífskjarasamningnum myndaði Efling bandalag við félög og það hélt mjög vel og leiddi til góðrar niðurstöðu. Þannig að nei, það voru ekki áhyggjur af þessu.“
Sólveig segir aðspurð að fyrirætlanir Eflingar séu ekki tilraun til að fá Starfsgreinasambandið að borðinu og knýja á um aðra eða betri þjónustu en áður fyrir félagið frá Starfsgreinasambandinu.
„Forysta félagsins, trúnaðarráð þess og samninganefnd hafa, eftir miklar umræður og vangaveltur og með því að skoða söguna og horfa til framtíðar, komist að því að á þessum tímapunkti sé þetta rétta niðurstaðan. Auðvitað verður það svo í höndum félagsfólks hvort þetta verður eða ekki,“ segir Sólveig Anna.