Anton Guðjónsson
Öllum sundlaugum borgarinnar var lokað einhverja daga um páskana í ár nema Laugardalslaug. Í fyrra var opið í fleiri laugum og á fleiri frídögum. Afgreiðslutíma sundlauganna var breytt fyrir páskahátíðina í hagræðingarskyni, að sögn Eiríks Björns Björgvinssonar, sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar.
„Við dreifðum þessu núna á milli lauganna. Við pössuðum okkur á því að þær væru opnar mismunandi daga. Laugardalslaugin var reyndar opin alla páskana en við dreifðum þessu aðeins á milli hinna,“ segir Eiríkur Björn í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta er hluti af hagræðingaraðgerðum borgarráðs sem voru samþykktar um áramótin. Um páskana er misjöfn notkun á laugunum og því getum við alveg dreift álaginu. Við pössum að reyna að hafa alltaf eina laug opna í vesturhluta borgarinnar, eina í austurhlutanum og svo auðvitað Laugardalslaugina. Þetta eru dýrir dagar fyrir okkur því þetta eru rauðir dagar,“ segir Eiríkur. „Þetta er hluti af mörgum aðgerðum hjá okkur og öllum öðrum sviðum borgarinnar á árinu til þess að hagræða aðeins í rekstrinum hjá okkur.“
Eiríkur segir þessa þjónustuskerðingu við borgarbúa ekki endilega vera til framtíðar. Þetta sé hluti af hagræðingaraðgerðum þessa árs og á næsta ári verði afgreiðslutími sundlauganna skoðaður með nýrri fjárhagsáætlun borgarinnar.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.