Búist er við um 280 skemmtiferðaskipum til Akureyrar og nágrennis í sumar en aldrei hafa jafnmörg skemmtiferðaskip lagt leið sína í Eyjafjörðinn á einu sumri. Þetta staðfestir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, í samtali við Morgunblaðið.
Framkvæmdir standa nú yfir á nýrri Torfunefsbryggju við Hof á Akureyri en Pétur segir framkvæmdirnar ganga vel og að hún verði tilbúin til notkunar fyrir komandi ferðamannasumar.
„Bryggjan sjálf verður nothæf til bráðabirgða í sumar fyrir lítil skemmtiferðaskip og báta ferðaþjónustunnar, til dæmis hvalaferðaþjónustu.“
Hann segir að nú þegar sé mestallt bókað á Akureyri, Grímsey, Hrísey og Hjalteyri og reiknað sé með metsumri. Til dæmis munu hátt í 60 skip heimsækja Grímsey í sumar. Vegna þessa hefur Hafnasamlag Norðurlands þurft að bæta við töluverðum fjölda af starfsmönnum.
Spurður hvernig gangi að útvega landtengingar fyrir skipin til að sporna gegn mengun segir Pétur það vel á veg komið. „Við erum langt komnir með að vera klárir að geta tekið á móti skipum á einni bryggjunni hjá okkur. Það vantar sáralítið upp á hjá okkur.“