„Aðgerðum er lokið, það er staðan,“ svarar Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir, spurð út í gang mála á bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu þar sem riða í sauðfé var staðfest í síðustu viku en bændur höfðu þá sett sig í samband við Matvælastofnun vikuna áður og tilkynnt um veikar kindur með riðulík einkenni.
„Allur fjárstofninn á Bergsstöðum hefur verið aflífaður, sýni tekið úr sérhverri kind og sent að Keldum til greiningar. Auk þess hafa dýr sem flutt hafa verið af Bergsstöðum og á aðra bæi einnig verið aflífuð og tekin úr þeim sýni sem send hafa verið til greiningar,“ segir yfirdýralæknir en nærri lætur að 700 fjár hafi mætt örlögum sínum í aðgerðunum að hennar sögn.
Kveður Sigurborg riðutilfelli fátíð nú til dags og bendir á tölfræði um sjúkdóminn sem MAST heldur úti á heimasíðu sinni. Kemur þar fram, á yfirlitsskjali yfir riðutilfelli tímabilið 2001 til 2021 að tilfelli hafi verið 44 þau 20 ár og sundurliðar MAST eftir varnarhólfi, sveitarfélagi, búsnúmeri, bæ og ártali.
Þá tínir stofnunin til tifelli svokallaðrar afbrigðilegrar riðuveiki, eða Nor98, og eru þau átta talsins yfir sama tímabil. „Þetta eru svona eitt til þrjú tilfelli á ári, það var ekkert tilfelli 2022,“ segir yfirdýralæknir og á við almenn riðutilfelli, ekki síðasttalda afbrigðið sérstaklega, „og þannig hefur þetta verið síðustu fimmtán til tuttugu ár en tilfellin einskorðuð við afmarkað svæði í Húnavatnssýslu sem er Línakradalurinn og svo um miðjan Skagafjörð,“ útskýrir Sigurborg.
Greinist riða þarf að farga allri viðkomandi hjörð segir hún enn fremur, „ef hún greinist ekki er ekki þar með sagt að hún sé ekki í hjörðinni, en maður andar léttar. Smitefni getur verið komið í dýrið án þess að það finnist í heilavef og þessir bæir verða í aukinni vöktun núna næstu árin, þetta tekur svo langan tíma, frá því smitefni berst í dýr og þar til klínísk einkenni koma fram, algengst er þar eitt og hálft til tvö ár en getur farið upp í fimm ár þannig að þetta er mjög erfitt við að eiga og tekur langan tíma,“ segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.
Í umfjöllun um riðuveiki á heimasíðu MAST kemur fram að hún sé langvinnur og ólæknandi sjúkdómur í sauðfé. „Sjúkdómurinn veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Flestar kindur sem sýna einkenni eru 1½-5 ára. Dæmi eru þó um riðueinkenni í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótín, nefnt Príon eða PrP sem hefur breytt lögun og við það orðið sjúklegt og fádæma lífseigt, þolir langa suðu og flest sótthreinsiefni nema helst klór,“ segir þar.
Kindur geti gengið með riðu langa ævi án þess að hún komi fram. Oftast sé dýrið þó veikt í mánuði áður en það safnast til feðra sinna. „Veikin leiðir kindina stundum til dauða á fáum vikum, eða á skemmri tíma. Smitefnið virðist lifa í umhverfinu í meira en áratug og getur komið upp á sama bæ oftar en einu sinni.“
Segir þá að sambærilegur sjúkdómur sé þekktur í öðrum dýrategundum, meðal annars geitum, nautgripum og hreindýrum, en hafi aldrei greinst hérlendis. Svokölluð hjartarriða (e. Chronic Wasting Disease) hafi fyrst greinst í villtu hreindýri í Noregi árið 2016 sem var fyrsta greinda tilfellið í Evrópu.
„Stuttu síðar greindust þar tveir elgir með hjartarriðu. Þessi þrjú dýr voru að segja má greind tilviljunarkennt en í framhaldi voru skipulagðar viðamiklar sýnatökur í hjartardýrum á veiðitíma um haustið til að kortleggja sjúkdóminn í Noregi. Í þeim sýnatökum fundust tvö sýkt hreindýr til viðbótar af alls 699 hreindýrum sem voru prófuð fyrir riðu. Í kjölfar þessara frétta voru tekin riðusýni úr hreindýrum hér á landi sem reyndust öll neikvæð. Áfram verður þó haldið með sýnatökur úr hreindýrum hér á landi,“ skrifar MAST á síðu sína.