Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kveðst vona að ný reglugerð um meðferð umsókna þriðjaríkisborgara um starfsleyfi og sérfræðileyfi muni einfalda og skýra ferlið svo um munar. Reglugerðin er nú í samráðsgátt.
Í nýrri reglugerð verður ekki gerð sú krafa að heilbrigðisstarfsfólk kunni íslensku.
Í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is til ráðherra segir hann að mikilvægt sé að tryggja skilvirkt ferli leyfisveitinga. Hagur allra sé að leyfisveitingar heilbrigðisstarfsfólks gangi hratt og örugglega fyrir sig.
Ríkissjónvarpið vakti athygli á máli kanadísks hjúkrunarfræðings á dögunum sem beðið hefur eftir starfsleyfi svo mánuðum skiptir. Sagði hún meðal annars aldrei hafa upplifað annað eins flækjustig og hér á Íslandi. Neyddist hún til þess að skila inn hátt í hundrað blaðsíðum af gögnum til að fá starfsleyfi.
Heilbrigðisráðuneytið lagði fram nýja reglugerð í samráðsgátt 5. apríl. Með þriðjaríkisborgurum er átt við ríkisborgara ríkja utan EES og Sviss sem jafnframt þurfa að hafa fengið útgefið atvinnu- og dvalarleyfi til þess að mega starfa hér á landi.
Fram kemur að fulltrúar ráðuneytisins hafi fundað með með embætti landlæknis, Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun, Landspítala og fleirum áður í undirbúningsvinnunni fyrir reglugerðina.
Helstu atriði hennar eru að í upphafi umsóknarferils um starfsleyfi verður nóg að leggja fram ráðningarsamning með fyrirvara um starfsleyfisveitingu.
Þá verður atvinnu- og dvalarleyfis ekki krafist fyrr en undir lok umsóknarferlis, áður en leyfi er gefið út. Ný heimild verður gefin út fyrir heilbrigðisstofnanir til að sækja um fyrir hönd sérfræðinga sem brýn þörf er á að fá til starfa á stofnunni.
Ekki verður gerð krafa um íslenskukunnáttu til að geta fengið starfsleyfi en ætlast er til þess að vinnuveitandi gangi úr skugga um að heilbrigðisstarfsmaður búi yfir viðunandi tungumálakunnáttu sem og þekkingu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem talin er nauðsynleg til að geta starfað sem heilbrigðisstarfsmaður.
Í lögum um heilbrigðisstarfsmenn hefur hingað til verið heimilt að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf eftir því sem við á hverju sinni.
Embætti landlæknis verður heimilt að forgangsraða umsóknum þeirra sem þegar eru komnir til landsins, umfram þá sem enn eru erlendis. Þá verður nóg að geta framvísað starfsleyfi frá ríki þar sem viðkomandi hefur starfað og staðfestingu á að hann hafi ekki verið sviptur leyfi, í stað þess að gera kröfu um starfsleyfi frá námslandi eða því ríki sem umsækjandi er ríkisborgari í.
Spurður hvort hann telji þá stöðu sem er uppi núna og endurspeglast í máli kanadíska hjúkrunarfræðingsins segist hann ekki telja svo, vegna þess að verið sé að bæta ferli starfsleyfisveitinga nú þegar.
Landlæknir talar um að starfsfólk þurfi jafnvel að vinna yfirvinnu út af þessum umsóknum, að mati ráðherra, þarf að fjölga starfsmönnum hjá embættinu?
„Vonandi mun ný reglugerð styðja embætti landlæknis við vinnuna við leyfisveitingarnar. Annars er það landlækni í sjálfsvald sett hvernig starfsemi embættisins er skipulögð. Ég treysti því að hún greiði hratt og örugglega úr öllum þeim leyfismálum sem eru inni á borði stofnunarinnar.“