Anton Guðjónsson
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, telur það vel geta orðið að árið í ár verði annað stærsta ferðamannaár sögunnar á Íslandi.
Hún segir þó markmiðið ekki vera að fjölga ferðamönnum sem heimsækja landið heldur að auka verðmæti þeirra heimsókna sem við fáum.
„Töluverður hluti er seldur fyrir fram, svokallaðar blokkbókanir, sem eru ennþá í sölu. Þannig að það eru ekki öll kurl komin til grafar akkúrat á þessum tímapunkti. Við getum ekki fullyrt hver endanleg niðurstaða verður varðandi sumarið fyrr en um mánaðamótin apríl-maí,“ segir Bjarnheiður í samtali við Morgunblaðið.
Isavia áætlar að í ár stefni í næststærsta ferðamannaár sögunnar á Íslandi. Alls muni 2,2 milljónir ferðamanna heimsækja landið, eins og Morgunblaðið fjallaði um á laugardag, eða 100 þúsund færri en metárið 2018.
„Það bendir flest til þess að þetta gæti verið mjög nálægt sannleikanum. Þetta fer miklu hraðar og betur af stað en við þorðum að vona,“ segir Bjarnheiður.
Nánar er rætt við Bjarnheiði í Morgunblaðinu í dag.