Haglabyssa undir gólffjölum, kakkalakki í eldspýtustokk og dagbækur frá árinu 1882 voru meðal þeirra fjölmörgu gripa sem komu í ljós þegar Haukur Sigurðsson og eiginkona hans Vaida Bražiūnaitė gerðu upp Albertshús á Ísafirði sem þau hafa nú búið í í tvö ár.
Haukur flutti erindi um endurbæturnar á húsinu, sem bar yfirskriftina „fornleifauppgröftur í miðbæ Ísafjarðar“, í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á dögunum.
Húsið á sér ríka sögu en það hefur tilheyrt fjölskyldu Hauks í yfir 130 ár. Það voru hjónin Magnea Guðný Magnúsdóttir og Albert Jónsson sem byggðu það árið 1890 en þau voru langalangalangamma og -afi Hauks. Það var síðan langalangaamma hans, Dísa á Bökkunum, sem átti heima þar lengst af, eða frá fæðingu og þar til hún varð hundrað ára. Synir Hauks og Vaidu eru því sjöundi ættliðurinn í fjölskyldunni sem hefur átt heima í húsinu, að undanskildum föður Hauks.
Mikið verk var fyrir höndum þegar Haukur og Vaida tóku við húsinu árið 2016.
Húsið hafði verið í slæmu ásigkomulagi í fjöldamörg ár en að sögn Hauks átti fjölskyldan ekki von á því að langalangamma hans myndi búa þar fram á hundraðasta aldursárið og því höfðu allar lagfæringar, sem gerðar voru, verið til skamms tíma.
„Í 30 ár var bara límt fyrir og kíttað í öll göt, bara skítareddingar. Flestir sérfræðingar sem að ég ráðfærði mig við sögðu að ég ætti sennilega ekki að gera þetta, vegna þess að ég kunni svo til ekki neitt. Húsið væri ónýtt og best væri að jafna það við jörðu og byggja nýtt, enda á ágætis stað í bænum.“
Hjónin hlustuðu þó ekki á þær ráðleggingar og hófust handa. Fyrsta árinu vörðu þau í að tæma húsið sem var heljarinnar verk enda hafði búslóðin aldrei verið flutt frá því að fyrstu forfeður Hauks fluttu inn fyrir 130 árum. Höfðu því ýmsir munir safnast fyrir í skúffum, skápum, geymslum og undir gólffjölum.
„Fyrsta eina og hálfa árið fór bara í það að fara í gegnum og sortera. Vega og meta hvað væri gersemar og hvað væri drasl því það er mjög fín lína þar á milli. Allir veggir voru fullir af hirslum og dóti sem enginn hafði séð í áratugi. Við fundum dagbækur með dagbókarfærslum merktar 1882.“
Haukur og Vaida eru bæði mannfræðingar og þótti þeim mikilvægt að varðveita verðmæta muni og mynda í bak og fyrir.
„Undir gólffjölum fundum við haglabyssu. Af hverju setur fólk haglabyssu undir gólffjöl? Ég veit það ekki. Það er kannski einhver glæpasaga þarna á bak við,“ segir Haukur glettinn.
„Við fundum líka dúkkuvarahluti, hausa og hendur af dúkkum. Bróðir langalangömmu var rafvirki sem gerði við útvörp þannig að það voru hundrað útvarpshræ og varahlutir. Langalangalangafi var járnsmiður þannig að það var endalaust af verkfærum og rennibekkur í smiðjunni. Það voru örugglega 20 tölubox og ætli við höfum ekki fundið svona 200 lykla.“
Þess til viðbótar fannst m.a. fjöldinn allur af bréfum, dagbókum, fundargerðum, skjölum og símskeytum.
„Vandamálið er það að mín kynslóð, eða allavega ég er svo lélegur að lesa svona gamla skrift, það er rosa erfitt. Að stauta mig í gegnum eina blaðsíðu tekur mig bara klukkutíma,“ segir Haukur spurður hvort hann hafi lesið dagbækurnar.
Ekki var þó hægt að halda öllu sem fannst og þurfti margt af því að fara á haugana.
„Það var sárt en þetta var rosa mikið af drasli og ég á ekki vöruskemmu til að geyma dót og byggðasafnið vildi varla taka neitt. En við hirtum samt allt of mikið. Við keyptum gám og settum fyrir utan húsið og fylltum hann.“
Að því loknu tóku við endurbætur á sjálfu húsinu. „Það þurfti náttúrlega að gera allt. Steypa nýjan sökkul og laga alla útveggi því það var allt rotið og ónýtt. Þetta var fimm til sex ára tímabil.“
Það kom svo að því að fjölskyldan flutti inn sumarið 2021.
Og taka synir ykkar svo við húsinu seinna?
„Það er ómögulegt að vita. Þeir eru ekki nema fimm og sjö ára svo ég hef ekki rætt þetta við þá. Við ætlum aldrei að selja þetta hús. Ekki úr þessu. Mér finnst það afar ólíklegt.“