Altjón varð á hjólhýsi sem kviknaði í við Menntasetrið við Lækinn við Skólabraut í Hafnarfirði, þar sem áður var Gamli Lækjarskóli.
Hjólhýsið stóð á bílastæði þar sem það var í geymslu. Tjón varð einnig á bíl sem hafði verið lagt við hliðina á því.
Tilkynning um eldinn barst klukkan 12.07, að sögn Lárusar Steindórs Björnssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sem veit ekki til þess að fólk hafi verið í hættu.
Greiðlega gekk að slökkva eldinn.
Spurður segir Lárus Steindór að gaskútur hafi verið utan á hjólhýsinu. Honum var leyft að brenna út. Um plastkút var að ræða sem bráðnar og springur ekki. Með því að leyfa honum að brenna út kemur gat á kútinn með þeim afleiðingum að gasið lekur út, að sögn Lárusar, sem tekur fram að engin hætta hafi verið á ferð.
Ekkert er vitað um eldsupptök.