Íhuguðu lokun í Reykjadal

Hveragerðisbær vill láta loka Reykjadal vegna yfirvofandi hættu. Umhverfisstofnu og …
Hveragerðisbær vill láta loka Reykjadal vegna yfirvofandi hættu. Umhverfisstofnu og lögregla eru á öðru mái. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vissulega íhuguðum við að loka Reykjadal en við mátum það sem svo að ekki væri þörf á lokun í þessu tilfelli. Hins vegar er Reykjadalur ekki í umsjón Umhverfisstofnunar þar sem það er ekki friðlýst svæði. Öll friðlýst svæði eru í umsjón okkar, Þingvalla- eða Vatnajökulsþjóðgarðs.“

Þetta segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri náttúruverndar og grænna áfangastaða hjá Umhverfisstofnun en Hveragerðisbær fór fram á við stofunina að svæðinu yrði lokað sökum slysahættu.

Þarf að vera óafturkræf hætta

Geir Sveinsson, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, vill að svæðinu verði lokað og sagði meðal annars í viðtali á RÚV að miklir pollar hefðu myndast í gríðarlega mikilli bleytu á svæðinu.

Umhverfisstofnun hefur heimild í náttúruverndarlögum um tveggja vikna skyndilokun en ef loka á í lengri tíma þarf samþykki ráðherra að liggja fyrir.

„Í raun þurfa náttúruverðmæti að vera í verulegri hættu og mögulega óafturkræfri hættu,“ segir Inga.

Innviðir ekki nægir og of mikil umferð

Inga Dóra segir Umhverfisstofnun hafa heimild til að loka svæðum sem ekki eru umsjón stofnunarinnar ef talið er að nauðsyn krefji.

„Yfirleitt verða staðirnir með þessum hætti ef innviðir eru ekki nægir og of mikil umferð. Það er ástæðan fyrir þessu ástandi á þessu svæði.“

Þó Umhverfisstofnun hugi fyrst og fremst að náttúruvernd, sem er skylda og hlutverk stofnunarinnar, þá er leitað til lögreglu vegna öryggis- og almannavarnasjónarmiða.

„Ég var í samandi við lögregluna varðandi öryggi og hættu og hún mat það sem svo að ekki væri þörf á lokun þarna vegna öryggis- og almannavarnasjónarmiða,“ segir Inga Dóra.

Staðan kallaði ekki á lokun

Björn Ingi Jónsson, verkefnisstjóri í almannavörnum hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi, segir að lögreglan hafi skoðað svæðið um helgina og metið það sem svo að staðan kallaði ekki á að svæðinu yrði lokað.

„Svæðið lítur hins vegar ekki vel út en Umhverfisstofnun fór og skoðaði svæðið og þeirra mat var að ekki væri þörf á lokun,“ segir Björn.

„Ég veit að Hveragerðisbær telur stöðuna ekki góða þó ég hafi nú ekki talað beint við bæjarstjóra. Það er frost í jörðu og þá geta komið litlar spýjur sem hafa gengið að hluta yfir stígana en þær eiga ekki að geta tekið fólk með sér, miðað við það sem við fengum mat úr. Það getur þó valdið óþægindum.“

Sameiginleg ákvörðun

Björn Ingi segir erfitt fyrir lögreglu að lýsa því yfir að það þurfi að loka vegna yfirvofandi hættu. Hann segir lögreglu vissulega geta tekið undir það sjónarmið að þarna geti skapast hætta en þó hafi hún metið það þannig að ekki sé hægt að loka vegna almannavarnasjónarmiða.

Hvaða aðstæður þurfa að vera fyrir hendi svo stöðum sé lokað vegna almannavarnasjónarmiða?

„Við lokuðum Reynisfjöru þegar aurskriðan var árið 2019. Þar féllu risastór björg niður úr fjallinu. Við lokuðum niður að Gullfossi þegar allt var í svelli,“ segir hann.

Hann segir ákvörðun tekna í samvinnu og samtali milli lögreglu og sérfræðinga hjá Veðurstofu og í þessu tilfelli Umhverfisstofnunar.

„Matið er unnið út frá veðurfari undanfarið og fram undan og reynslunni á svæðinu og hættum á svæðinu.“

Loka við lífshættulegar aðstæður

Björn segir alltaf inngrip að loka stöðum.

„Það vegur mjög þungt þegar sveitarfélagið vill láta loka en við sem lögregluyfirvöld að passa að við séum þá að loka við lífshættulegar aðstæður.

Allt svona er í stanslausri skoðun, eftirfylgni og samtali. Okkar álit getur breyst og það er ekkert sem segir að það geti ekki gerst í þessu tilviki,“ segir Björn Ingi.

Þarf uppbyggingu innviða

Inga segir að það þurfi virkilega mikinn átroðning og virkilega hættu að vera á ferð til að gripið til þessa ákvæðis um lokun.

„Staðan getur auðvitað versnað en eins og hún er núna virðist þetta vera afturkræft ef farið verður í að byggja upp innviði.“

Hún segir að víða sé drullusvað í þessari tíð.

„Það sem kemur í veg fyrir það er uppbygging innviða. Það er gerð stíga og svo drena til að vatnið fari í rétta átt. Þarna þarf meiri uppbyggingu.“

Unnið er að mikilli innviðauppbyggingu á svæðum sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með að sögn Ingu Dóru.

„Landsáætlun um innviðauppbyggingu gagnast klárlega almennt í náttúruverndinni og hefur búið okkur undir allt þetta ferðamannaflóð,“ segir hún.

Fjaðrárgljúfri lokað og helli við Jarðböðin

Fjaðrárgljúfri hefur verið lokað vegna umhverfissjónarmiða. Inga Dóra segir að þar sé staðan alvarlegri og að þar sé meiri umferð en til dæmis um Reykjadal.

Aðspurð hvort fleiri stöðum hafi verið lokað eða lokanir séu í umræðunni víðar segir hún svo ekki vera fyrir utan lokun á helli sem fannst við Jarðböðin í Mývatnssveit á dögunum.

„Það hefur enginn farið þar um áður en okkur tókst að loka honum. Við viljum ekki fá neinn þangað inn þar sem það gæti leitt til óafturkræfra skemmda. Sú lokun byggist á sömu heimild í náttúruverndarlögum,“ segir Inga Dóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert