Kolbrún býður sig fram til formennsku BHM

Kolbrún Halldórsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbrún Halldórsdóttir, varaformaður BHM, formaður Félags leikstjóra á Íslandi og fyrrverandi umhverfisráðherra, hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis formanns BHM, Bandalags háskólamanna. Þetta tilkynnti hún formönnum aðildarfélaga BHM í pósti fyrr í dag.

Friðrik Jónsson, núverandi formaður BHM, greindi frá því fyrir tæplega tveimur vikum að hann hygðist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu, en hann hefur gegnt stöðunni í eitt kjörtímabil, eða í tvö ár.

Kolbrún segir í póstinum að hún hafi á formannaráðsfundi í lok síðasta mánaðar sagt formönnum félaganna frá því að hún hefði komist að þeirri niðurstöðu að kraftar hennar kynnu að nýtast bandalaginu vel og að hún væri tilbúin að bjóða sig fram til næstu tveggja ára.

Segist hún nú hafa upplýst stjórn Félags leikstjóra á Íslandi um þessi áform og hafi leit verið sett í gang að nýjum formanni FLÍ. Þá hafi hún einnig sett framboð sitt í farveg samkvæmt lögum BHM og tilkynnt framboð sitt til framboðsnefndar BHM og kjörstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert