„Mun láta reyna á þessa vitleysu fyrir dómstólum“

Ómar R. Valdimarsson hyggst láta reyna á mál sitt og …
Ómar R. Valdimarsson hyggst láta reyna á mál sitt og úrskurðarnefndarinnar fyrir dómi. Ljósmynd/Aðsend

„Það er margt við þetta mál að athuga og ýmsar rangfærslur hafa verið í umfjölluninni til þessa,“ segir Ómar R. Valdimarsson lögmaður í samtali við mbl.is um mál sem fjölmiðlar hafa fjallað um undanfarið og snýst um að úrskurðarnefnd lögmanna, sem starfar innan vébanda Lögmannafélags Íslands, gerði Ómari að greiða til baka hluta endurgjalds fyrir vinnu í þágu skjólstæðinga vegna umferðarslyss.

Segir Ómar að í fyrsta lagi hafi ekki verið um að ræða konu sem slasaðist, eins og fram hefur komið í sumum fjölmiðlum, „heldur tvo unga rúmenska karlmenn, sem lentu í bílslysi um jólin 2019. Þeir leituðu til mín 30. desember 2019 og báðu um mína aðstoð við að tryggja sér bætur vegna þjónustunnar,“ segir Ómar frá.

Á fundi með mönnunum hafi Ómar gert þeim grein fyrir því að hann gæti tekið málið að sér en fyrir þjónustuna rukkaði hann fimmtán prósent af væntum bótum auk virðisaukaskatts. Enn fremur greiddu tryggingafélög lögmönnum sérstaka innheimtuþóknun í málum á borð við þetta og rynni hún einnig til lögmannsstofunnar. „Ef þessir herramenn fengju ekki greitt út úr slysinu, myndi ég ekki rukka þá um svo mikið sem eina krónu,“ heldur Ómar áfram.

„Samskiptin fóru fram á ensku og umboðið sem var undirritað var á ensku. Í því er sérstaklega tekið fram að viðkomandi hafi kynnt sér verðskrána, sem var á netinu – og er reyndar enn,“ segir lögmaðurinn.

Nefndin fari villur vegar

Hann segir úrskurðarnefndina á hreinum villigötum í þessu máli og raunar mörgum öðrum. „Það er athugunarefni að í úrskurðarnefndinni sitja þrír lögmenn, sem eru í samkeppni við aðra starfandi lögmenn. Í mínum störfum hefur það gerst nokkrum sinnum að ég hafi fengið til mín viðskiptavini sem áður hafa fengið þjónustu lögmanna sem sitja í nefndinni. Það er ekki bara einkennilegt heldur algjörlega óforsvaranlegt að nokkrir lögmenn á litlum samkeppnismarkaði fari með agavald yfir kollegum sínum,“ segir Ómar af úrskurðarnefndinni.

Ómar kveður það athugunarefni að í úrskurðarnefndinni sitji þrír lögmenn …
Ómar kveður það athugunarefni að í úrskurðarnefndinni sitji þrír lögmenn sem eigi í samkeppni við aðra starfandi lögmenn. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Bætir hann því við að lögmönnum sé samkvæmt lögum um stéttina heimilt að beita hagsmunatengingu í málum er þeir taki að sér og vísar máli sínu til stuðnings í 24. grein laganna auk tveggja dóma Hæstaréttar frá 1993 og 1995 þar sem tenging þessi hafi þótt eðlileg vinnubrögð. Í téðri lagagrein segir í fyrstu málsgrein:

Lögmanni er rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans eftir því sem unnt er gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast.

Gjaldið hærra en „venja standi til“

Vísar Ómar að auki til eins dóms Hæstaréttar til viðbótar en sá er frá árinu 2016, númer 447 það ár í dómasafni. „Í þeim dómi má lesa út þá túlkun réttarins, að meginmáli skiptir að endurgjaldið sé ákvarðað strax í upphafi þeirrar vinnu sem lögmenn taka að sér fyrir umbjóðendur sína. Segir í tilvitnuðum dómi:

„Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er staðfest að ósannað sé að áfrýjandi hafi frá upphafi áskilið sér þóknun byggða á heildarhagsmunum við innheimtuna eða að stefnda hafi á annan hátt verið gert ljóst hvert endurgjaldið fyrir þá vinnu gæti orðið.“

Segir Ómar að svo virðist sem úrskurðarnefndin telji sig geta stigið inn í eignarréttindi lögmanna, kröfur teljist að sjálfsögðu til eigna og falli þar með undir verndarákvæði stjórnarskrárinnar á sviði eignarréttarins.

„Á meðal málsástæðna í málinu var einnig að endurgjaldið væri hærra en „venja í málum sem þessum stendur til“. Þessi fullyrðing var engum gögnum studd en allt að einu gripin á lofti af þessari sérkennilegu nefnd. Þóknanir lögmanna í slysamálum eru mjög misjafnar – sumir rukka minna en fimmtán prósent og aðrir meira. Það er allur gangur á því. Þá er ljóst að þessir júrídísku loftfimleikar úrskurðarnefndarinnar stappa ansi nærri því að brjóta ákvæði samkeppnislaga,“ telur Ómar.

Sérkennilegt og stórundarlegt

Á landinu séu um þúsund lögmenn með virk réttindi og sé bróðurpartur þeirra sjálfstætt starfandi einyrkjar sem taki að sér mismunandi verkefni með sérhæfingu á mismunandi sviðum. Sumir vinni fyrir fáa, aðrir fyrir marga.

„Verðlagning einstakra lögmanna eða lögmannsstofa á sinni þjónustu hlýtur að taka mið af þeim þáttum sem hver og einn rekstraraðili telur nauðsynlega. Þannig kunna sumir lögmenn eða lögmannsstofur að innheimta hærra gjald fyrir sína þjónustu en aðrir, sökum þess að þjónustan kann að vera umsvifameiri heldur en sú þjónusta sem aðrir bjóða upp á. Þá getur sérþekking og reynsla skipt miklu máli þegar kemur að verðlagningu þjónustu. Að gefa til kynna, að „hefðbundið“ verð eigi að gilda á þessum markaði, er ekki bara sérkennilegt heldur stórundarlegt,“ segir Ómar.

Telur hann með því gefið til kynna að lögmenn eigi með einhverjum hætti að takmarka samkeppni sín á milli með samstilltri verðlagningu eða verðsamráði. Slíkt fæli í sér samkeppnishömlur sem brytu í bága við samkeppnislöggjöf.

Vafasamt að hvetja til samræmdrar verðlagningar

„Lögmenn hafa svo sem reynt áður að stilla saman strengi sína þegar kemur að verðlagningu. Þannig kvað ákvörðun samkeppnisráðs nr. 5/2004 á um að Lögmannafélag Íslands hefði brotið gegn 12. grein samanber 10. grein þágildandi samkeppnislaga, nr. 8/1993, með því að útbúa sérstakan kostnaðargrunn sem átti að gagnast lögmönnum sem fyrirmynd við útreikning á tímagjaldi lögmannsstofa. Að hvetja til samræmdrar verðlagningar á þjónustu lögmanna til tjónþola á Íslandi er í hið minnsta vafasamt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið,“ segir Ómar og kveðst að lokum munu láta reyna á mál sitt fyrir dómstólum.

„Það er algjörlega ljóst að ég mun láta reyna á þessa vitleysu fyrir dómstólum. Þá skoða ég að vekja athygli samkeppnisyfirvalda á málinu,“ eru lokaorð Ómars R. Valdimarssonar lögmanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert