Segist hafa verið gerður að blóraböggli

Jón Ingvar Pálsson, fyrrverandi forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga.
Jón Ingvar Pálsson, fyrrverandi forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

Jón Ingvar Pálsson, fyrrverandi forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga, segist hafa verið gerður að blóraböggli í máli þar sem stofnunin var dæmd til að greiða um 19 milljónir króna vegna brota á jafnréttislögum.

Í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum segir hann það sæta furðu að hann hafi aldrei verið kallaður til sem vitni í málinu. Hann hefur stefnt stjórn stofnunarinnar fyrir dóm þar sem hann krefst skaðabóta.

„Það stenst enga skoðun að vera talinn höfuðpaur í málinu án þess að vera látinn gera grein fyrir máli mínu. Þá er tímasetning frétta af málinu varla tilviljunum háð. Dómur var uppkveðinn í mars, en fyrst nú í apríl birtur með tilheyrandi flugeldasýningu, á sama tíma og ég hef stefnt stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga fyrir dóm til þess að sækja bætur sem mér ber úr hendi þeirra, vegna brota þeirra á starfsréttindum mínum,“ skrifar Jón Ingvar og bætir því við að hann hafi kvartað til Persónuverndar því Innheimtustofnun hafi flett honum upp með ólöglegum hætti í gagnakerfum Skattsins.

Hann segir niðurstöðu dómsins hafa komið sér að óvörum og nefnir að ný stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafi valdið sér tjóni og skattgreiðendum „ómældu fjárhagstjóni“ við meðferð málsins.

„Hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga störfuðu 4 lögfræðingar í minni tíð þar. Tilviljun réð því að 2 karlkyns lögfræðingar sem eru báðir með lögmannsréttindi og taka launahækkunum m.a. samkvæmt því voru fyrir í störfum er ég tók við starfi mínu. Voru þeir báðir með um 20 ára starfsreynslu hjá stofnuninni er ég lét af störfum. Hinir 2 voru kvenkyns lögfræðingar, án lögmannsréttinda á þeim tíma sem skiptir máli og störfuðu í mun skemmri tíma, þannig með mun styttri starfsreynslu en hinir tveir. Reyndar var þar í seinni hópnum á tímabili einnig starfandi karlkyns lögfræðingur sem þáði sömu laun og kvenkyns lögfræðingarnir,“ segir Jón Ingvar í yfirlýsingunni.

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það gefur auga leið að nokkur munur var á launakjörum þessara tveggja hópa eftir menntun og reynslu. Hvers vegna stefnandi málsins kýs að bera sig saman við einn karlkyns lögfræðing en ekki aðra er mér hulin ráðgáta og vekur upp ýmsar spurningar. Getur nýútskrifaður einstaklingur krafist sömu launa og aðili með 20 ára reynslu ef þau eru hvort af sínu kyninu? En ef aðilarnir eru af sama kyni?“

Hann nefnir að kjarasamningsumboð fyrir Innheimtustofnun sveitarfélaga (IS) var og er í höndum kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Stjórnendur stofnunarinnar hafi hvergi komið þar hvergi nærri og kjarasvið hafi alfarið annast kjarasamninga starfsfólks IS. Hinir áðurnefndu 4 lögfræðingar stofnunarinnar hafi að beiðni og frumkvæði kjarasviðs SÍS og Stéttarfélags lögfræðinga (BHM) verið látnir undirgangast umfangsmikið starfsmat, sem hafi tekið um 3 ár.

„Ekki á mína ábyrgð“

Niðurstaða starfsmatsins var á þá leið, að sögn Jóns Ingvars, að tveir yngri lögfræðingar IS (kvenkyns) skyldu hækka í launum. Hinir tveir (karlkyns) skyldu lækka í launum.

„Lögfræðingar IS nutu kjarabóta utan samningsgreiðslna í formi greiddra yfirvinnustunda. Voru hinir tveir eldri þar í efsta þrepi, en hinir tveir yngri nutu þess að hluta, enda var skýr kjarastefna á þá leið að yngri lögfræðingar skyldu hljóta hækkanir þar eftir fyrirfram ákveðnu kerfi varðandi starfstíma, reynslu og menntun. Kom kyn lögfræðinga þar málinu ekkert við,“ segir Jón Ingvar í yfirlýsingunni. 

„Fyrir lok starfs míns hjá IS varð hækkun vegna þessa á greiðslum til annars kvenkyns lögfræðingsins eftir starfskjarakerfi þessu (þess er ekki var stefnandi málsins) vegna starfsaldurs. Svo undarlega bar við að ný stjórn IS, þrátt fyrir umhyggju sína fyrir sömu kjörum óháð kyni, ákvað að afturkalla réttmæta launahækkun þessa. Það er því algerlega ljóst að hafi einhver lög verið brotin hér, þá var það ekki á mína ábyrgð.“

Reynt að koma höggi á fyrri stjórnendur

Hann segir nýja stjórn, að undirlagi SÍS og innviðaráðuneytisins, hafa reynt að koma höggi á fyrri stjórnendur IS með ýmsum bolabrögðum. Stjórnin hafi ekki getað litið í eigin barm.

„Svo skemmtilega vill til að aðfarir þessar hafa leitt til þess að IS eða arftaki þess er undir fullri stjórn og ákvörðunarvaldi ákveðins stjórnmálaflokks, sem kórónað var nú með ráðningu eins þeirra félaga í starf framkvæmdastjóra SÍS. Mun öll starfsemi sem máli skiptir flytjast norður í land og nánast allir sem málunum tengjast eru með tengingar þangað.“

Bætir hann við að fyrri stjórnendur hafi skilað IS og þar með skattgreiðendum bestu innheimtu í yfir 50 ára sögu IS í sinni stjórnartíð. Þeir hafi víða fengið hrós fyrir, jafnvel á opinberum vettvangi.

Jón Ingvar gagnrýnir það einnig að ríkisendurskoðandi hafi verið „dreginn að borðinu til að réttlæta yfirtöku ríkis á starfsemi IS“. Þetta veki athygli því IS heyri ekki undir það embætti.

Stýrði IS með einstökum árangri

„Ég er nauðbeygður til að freista þess að bera hönd fyrir höfuð mér með tilkynningu þessari, vegna ómaklegrar, meiðandi og rangrar umfjöllunar um málefni mín, og annarra fyrrverandi starfsmanna hjá IS. Ég starfaði hjá stofnuninni og stýrði í yfir tvo áratugi með einstökum árangri. Nú er lag að linni. Einfaldast er að dómstólar klári þessi mál en ekki dómstóll götunnar sem getur gengið ómaklega fram.

Staðreyndin er sú að ný stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefur enn, tæpu einu og hálfu ári eftir verknaðinn, ekki hleypt undirrituðum og öðrum fyrrverandi starfsmönnum í þeirra einkagögn þrátt fyrir lögbundna skyldu til þess, hvað þá framvísað neinu þeirra gagna sem þörf er á til að skýra mál.

Hvað hafa þau að fela? Skyldu það vera þær ómældu milljónir sem ný stjórn hefur tekið í þóknun frá því þau tóku við og enginn virðist vilja fjalla um? Fjölda annarra rangfærslna sem núverandi stjórn hefur haldið fram verður svarað fyrir dómstólum á þar til bærum tíma,“ segir Jón Ingvar að lokum í yfirlýsingu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert