Skúffusamningar „forkastanleg vinnubrögð“

Jón Páll Hreinsson.
Jón Páll Hreinsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og stjórnarmaður í Innheimtustofnun sveitarfélaga segist ekki vita hvað átt er við þegar talað er um skúffusamninga við karlkyns lögfræðinga í nýlegum dómi þar sem stofnuninni var gert að greiða fyrrverandi kvenkyns starfsmanni rúmar 19 milljónir króna í bætur vegna kynbundins launamunar.

Kon­an, sem starfaði sem lög­fræðing­ur hjá Inn­heimtu­stofn­un, fékk lægri mánaðarlaun en karl­maður sem sinnti sam­bæri­legu starfi þar. Fyrr­ver­andi for­stjóri stofn­un­ar­inn­ar svaraði ekki kröfu kon­unn­ar. Þegar ný stjórn tók við í desember 2021 var málið skoðað. 

Í helstu málsástæðum og lagarökum stefnanda í dóminum kemur fram: „Yfirmaður stefnanda hafi ekkert gert með athugasemdir og ábendingar stefnanda, heldur svarað henni með þeim hætti að við karlkyns lögfræðingana hefðu verið gerðir svokallaðir „skúffusamningar“ og því væri ekkert við þessum launamun að gera. Stefnda hafi því verið að fullu upplýst um kynbundinn launamun lögfræðinga stefndu, en hafi ekkert aðhafst til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi lögbrot.“

„Aldrei heyrt þetta“

„Ég hef aldrei heyrt þetta og ég veit ekki hvað er verið að vísa í,“ segir Jón Páll Hreinsson, spurður út í þessa svokölluðu skúffusamninga. „Maður getur svo sem ímyndað sér að þetta sé eitthvað orðalag sem hafi verið notað til að réttlæta þennan launamun, en ég veit það ekki,“ segir hann og bætir við að „skúffusamningar“ viðgangist ekki hjá stofnuninni.

„Ég held að allir alvöru stjórnendur og þeir sem stýra fyrirtækjum, opinberum stofnunum eða sveitarfélögum stunda ekki að gera skúffusamninga til þess að fela launamun. Það eru forkastanleg vinnubrögð.“

Innheimtustofnun sveitarfélaga er í Lágmúla í Reykjavík.
Innheimtustofnun sveitarfélaga er í Lágmúla í Reykjavík. Ljósmynd/Ja.is

Sagði launamuninn ekki kynbundinn

Innheimtustofnun var dæmd var fyrir að hafa brotið jafnréttislög með stórfelldum kynbundnum launamun. Fram kemur í dóminum að stofnunin viðurkenndi að óútskýrður launamunur hefði verið á milli konunnar sem höfðaði málið og öðrum karlkyns lögfræðingi sem starfaði hjá stofnuninni. Því hefði stofnunin greitt konunni rúmar 16 milljónir króna auk dráttarvaxta. Stofnunin mótmælti því aftur á móti fyrir dómi að launamunurinn á milli konunnar og karlkyns lögmanna stofnunarinnar hefði verið kynbundinn. Starfið sem konan sinnti hafi ekki verið sambærilegt þeim störfum sem umræddir karlkyns starfsmenn sinntu.

Jón Páll segir að samkvæmt ráðleggingum sem stofnunin fékk lék vafi á því hvernig ætti að reikna út bætur til konunnar. Ekki hafi verið óeðlilegt að fá úr því skorið fyrir dómstólum, enda um opinbert fé að ræða. „Það þýðir ekki að við séum ósátt við niðurstöðuna,“ nefnir hann og kveðst fyrst og fremst ánægður með að enginn vafi sé lengur fyrir hendi.

„Á ekki að líðast“ 

Jón Páll tekur fram að aldrei hafi verið nein leyndarhyggja yfir málinu af hálfu stjórnarinnar og að hún hafi ekki óskað eftir nafnleyndinni í dóminum.

„Fyrst og fremst þykir okkur það leitt að þetta hafi gerst. Þetta er eitthvað sem á ekki að líðast og mun ekki líðast á meðan við erum við stjórn,“ segir hann og bætir við að óútskýrður launamunur eigi aldrei rétt á sér, hvort sem hann er á grundvelli kyns, trúarbragða eða annars.

Jafnlaunavottun núna óskynsamleg

Til stendur að leggja Innheimtustofnun sveitarfélaga niður og verður innheimtan færð yfir til sýslumanns. Frumvarp þess efnis er í samráðsgátt stjórnvalda og bíður samþykkis á Alþingi.

Stofnunin var ekki með jafnlaunavottun þegar nýja stjórnin tók við. Spurður út í launamálin á þeim tíma sem líður þangað til stofnunin verður lögð niður segist Jón Páll ekki hafa áhyggjur á þeim og bendir á að núverandi forstjóri hafi mikla reynslu af stjórnunarrekstri. „Þetta er tímabundið verkefni hjá okkur öllum og snýst fyrst og fremst um að undirbúa yfirfærslu á verkefnum.“

Hann heldur áfram og segir óskynsamlegt að fara í jafnlaunavottun rétt áður en stofnunin verður lögð niður. Slíkt væri sóun á opinberu fé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert