Hlal Jarah, stofnandi matsölustaðarins Mandi, hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa veist að konu annan dag jóla árið 2020. Héraðsdómur Reykjavíkur birti dóminn í dag.
Hlal er gert að greiða henni 400 þúsund krónur auk allan sakarkostnað, rúmar 2,2 milljónir króna.
Hlal er ekki lengur eigandi Mandi né sér hann um rekstur staðarins, en hann seldi reksturinn til félagsins Veitingafélagið í ágúst í fyrra
Lögreglu barst tilkynning upp úr klukkan 20 á öðrum degi jóla um mögulega líkamsárás við Veltusund 3b, en þar starfrækti ákærði hótel.
Þegar lögregla kom á staðinn segir í málsatvikalýsingu að brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi og tjáð lögreglu að eigandi hótelsins hefði beitt hana ofbeldi. Ákærði var handtekinn og fluttur á lögreglustöð.
Konan steig fram í viðtali við Heimildina á síðasta ári.
Brotaþoli leitaði á slysadeild og sagði ákærða hafa ráðist á sig. Kvaðst hún finna til í höfði, vinstri vanga, neðarlega í baki, í hægri fæti fyrir neðan hné og í vinstra læri. Í skýrslutöku tveimur dögum seinna lýsti hún samskiptum sínum við ákærða í aðdraganda atviksins.
Sagðist hún hafa verið utan dyra þegar leigusalinn, ákærði, hafi komið gangandi. Hann hafi hrækt á hana og kallað hana „bitch“ og hún þá svarað fyrir sig en við það hafi hann reiðst. Hún hafi farið inn og reynt að loka dyrunum en þá hafi hann veist að henni. Hann hafi þvingað hana út, hrint henni svo að hún datt aftur fyrir sig.
Ákærði sagði í skýrslu á lögreglustöð að hann hafi brugðist illa við þegar brotaþoli hefði hrækt á hann fyrir utan húsið og kallað hann „son of a bitch“ og smánað þar með móður hans. Hefði hann síðan gripið í brotaþola, ýtt henni út úr húsinu en hún dottið á götuna vegna hálku. Allt hefði gerst mjög hratt, hann myndi ekki atvik nákvæmlega.
Upptaka úr öryggismyndavél var notuð til að rannsaka málið, en er hún án hljóðs. Því var ekki hægt að skera úr um hvað fór á milli brotaþola og ákærða. Myndskeiðið sýni hins vegar að ákærði gangi mjög ákveðið fram gegn brotaþola og beiti hana aflsmunum. Hún hafi ekki fengið rönd við reist vegna líkamlega yfirburða ákærða og féll af dyradrepi niður á götuna.
Í dómnum kemur fram að framburður brotaþola hafi frá upphafi verið stöðugur í öllum meginatriðum og ítarlegur. Frásögn hennar fyrir dómi verið trúðverðug og fær stoð af upptöku úr eftirlitmyndavél.
Þá kemur einnig fram að framburður ákærða hafi verið óheildstæður. Hann hafi ekki getið til um að hann hefði hrækt í átt að brotaþola fyrr en hann hafði séð myndupptökuna. Það er því mat dómsins að framburður hans hafi í heild verið ósannfærandi.
Uppfært: Í fréttina var bætt við upplýsingum um að Hlal hefði selt rekstur Mandi í fyrra.