Aðgerðirnar í Brasilíu lengi í undirbúningi

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. mbl.is//Hari

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segist ekki geta staðfest það um hvaða Íslending sé að ræða sem handtekinn var fyrr í dag í Brasilíu. Þá hafi aðgerðirnar verið lengi í undirbúningi hjá brasilískum yfirvöldum sem sögðu Íslendinginn vera leiðtoga innan glæpasamtaka sem aðgerð dagsins snerist að.

Samkvæmt heimildum RÚV var þarna á ferðinni Sverrir Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi tönn, sem hefur áður verið dæmdur í Brasilíu fyrir fíkniefnasmygl.

„Við höfum á undanförnum árum verið markvisst að styrkja samskipti okkar við lögregluyfirvöld í Suður-Ameríku og einkum Brasilíu vegna þess að það hefur verið talsvert um tengingar á skipulagðri brotastarfsemi þangað. Meðal annars höfum við nýtt okkur starfsemi Europol í því skyni þar sem að Brasilía er með tengslaskrifstofu þar eins og við. Það hefur meðal annars hefur leitt til þess að brasilísk yfirvöld hafa rannsakað brotahópa sem hafa haft tengingu til Íslands og verið með starfsemi bæði í Suður-Ameríku og Evrópu.,“ segir Karl Steinar í samtali við mbl.is.

Ljósmynd/Brasilíska alríkislögreglan

Hann segir aðgerð dagsins, sem bar heitið „Match point“ hafa verið lengi í undirbúningi hjá brasilísku lögreglunni.

„Við höfum verið í ákveðinni samvinnu með þeim því tengt. Sem liður í því þá get ég staðfest að það eru starfsmenn frá íslenskum yfirvöldum í Brasilíu og verða eitthvað eins og þurfa þykir.“

Samvinnan milli landanna hafi verið töluvert lengi í gangi.

„Þetta er liður í nútímalögreglusamvinnu þar sem lönd eru að vinna saman. Við erum með ákveðnar upplýsingar og þau með annað. Það er verið að vinna ákveðna greiningarvinnu og svo teknar ákvarðanir tengt því sem leiða þá til þessara aðgerða sem eru þarna núna á forræði þeirra,“ segir Karl Steinar um samstarfið.

Greint var frá því fyrr í dag að aðgerð brasilísku alríkislögreglunnar næði til tíu borga þar í landi. Lögreglan lagði hald á 65 kíló af kókaíni, 225 kíló af kannabisefnum og 57 fasteignir auk ökutækja og skipa ásamt því að loka fyrir bankareikninga 43 einstaklinga.

Lögreglan telur verðmæti eignanna sem gerðar voru upptækar geta numið um 150 milljónum brasilísks ríal eða um 4,2 milljörðum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert