„Ef löggjafinn setur þetta svona fram þá myndast réttaróvissa sem dómstólar þurfa að leysa úr þegar fram líða stundir, sem æskilegra væri að svara strax.“ Þetta er mat Vilhjálms Þ.Á. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns á frumvarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.
Vilhjálmur hefur víðtæka þekkingu á erfðamálum og málflutningi sem tengist þeim. Hann segir mörgum spurningum ósvarað og ljóst að dómstólar þurfi að svara þeim verði það ekki gert áður en frumvarpið verður að lögum.
Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæðum laga sem kveða á um eyðingu kynfrumna og fósturvísa við andlát eða sambúðarslit þrátt fyrir að geymslutími þeirra sé ekki liðinn. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að frumvarpið miði að því að virða vilja pars sem hafi í tengslum við tæknifrjóvgunarferli geymt kynfrumur eða fósturvísa.
„Sú staða gæti því komið upp að látinn maður eignist barn með eftirlifandi konu, jafnvel mörgum árum eftir andlátið, sem er svo sem gott og gilt. Það vekur hins vegar lagalegar spurningar um rétt barnsins til arfs.“ Vilhjálmur segir erfðalögin á Íslandi byggjast á þeirri meginreglu að getið barn taki arf ef það fæðist lifandi. Regluna megi rekja allt aftur til Grágásar og Jónsbókar sem var lögfest 1281. Nýir tímar kalli hins vegar á nýjar spurningar.
„Fólk var ekkert mikið að huga að tæknifrjóvgunum á Grágasartímabilinu,“ segir hann. „Hvað er t.d. getnaður? Hann er ekki skilgreindur í lögum með formlegum hætti en almennt er litið á það sem samruna eggs og sæðis. Getur frjóvgað egg í glasi notið erfðaréttar?“ spyr Vilhjálmur og færir fyrir því rök að svo geti verið.
Þetta getur haft áhrif á skipti dánarbúa. „Kona sem sest í óskipt bú eftir andlát mannsins síns gæti hugsanlega þurft að sitja í skilyrtu óskiptu búi með frjóvguðu eggi, sem mögulega verður að barni síðar. Sá sem hefur ekki hlotið arf við dánarbússkipti getur krafist arfs innan tíu ára ef gengið hefur verið fram hjá honum og beinir þá kröfu að öðrum erfingjum. Þegar um ólögráða einstaklinga er að ræða þá fer foreldri með hagsmuni þess. Sú staða gæti þá myndast að eftirlifandi eiginkona þurfi að beina arfskröfu fyrir hönd ólögráða barns að sjálfri sér eða jafnvel öðrum börnum sínum.“
Vilhjálmur segir hugsunina með frumvarpinu góða en æskilegt sé að svara knýjandi spurningum.
Aðeins þrjár umsagnir bárust um frumvarpið. Emma Björg Eyjólfsdóttir, heimspekingur við HÍ, segir það vonbrigði og segist sakna þess að fleiri sem láta sig málefni barna hafi lagt orð í belg eins og t.d. Umboðsmaður barna eða Barnaheill. „Það fyrsta sem maður vill sjá í öllum frumvörpum sem varða líftækni og líf einstaklinga er að hagsmunir barnsins séu í fyrirrúmi. Vonandi koma þó fram fleiri sjónarmið þegar málið verður tekið til þinglegrar meðferðar.“ Hún segir málið varða stórar siðferðilegar spurningar.
Emma segir að við fyrstu sýn séu siðferðilegu álitaefnin í frumvarpinu ekki ósvipuð þeim sem komu til álita þegar einhleypum konum var t.d. heimilað að fara í tæknifrjóvganir. „Þá er ég fyrst og fremst að vísa til tilfella þar sem kynfrumugjafi var látinn.“ Fleira komi þó til. Hér sé eigandi kynfrumnanna alltaf þekktur og því þurfi að gæta sérstaklega að möguleikum barnsins til að þekkja og tengjast föðurfjölskyldunni og svo öfugt.
Emma segir málið risastórt. „Á næstu árum og áratugum munum við standa frammi fyrir spurningum um siðferðileg álitaefni sem tengjast framförum í líftækni og lífvísindum sem takast verður á við. Þetta er ekki erfiðasta málið sem við eigum eftir að horfast í augu við.“