Málþing um alþjóðlegan rétt til heilnæms umhverfis fer fram í Háskólanum í Reykjavík í dag frá klukkan 17 til 18.30.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður með erindi og aðrir frummælendur eru David Boyd, sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og umhverfi, Amy Jacobsen frá Greenpeace International og Sébastien Duyck frá alþjóðlegri miðstöð umhverfisréttar (Center for International Environmental Law).
Viðburðirnir eru haldnir í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fer fram í Reykjavík í maí.
Hér má fylgjast með beinu streymi frá málþinginu:
Hér er um afar brýnt samfélagslegt málefni að ræða sem forsætisráðherra leggur áherslu á í tengslum við leiðtogafundinn, að því er kemur fram í tilkynningu.
„Mannkynið stendur nú frammi fyrir þrefaldri ógn af völdum loftmengunar, loftslagsbreytinga og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Áætlað er að tæplega 7 milljónir manna um allan heim, og meira en 300.000 í Evrópu, látist árlega vegna loftmengunar. Flóð, langvarandi hitabylgjur, skógareldar og þurrkatímabil fara vaxandi vegna loftslagsbreytinga og heilu vistkerfin eru að hrynja, sem skerðir fæðuöryggi og aðgang að vatni. Þetta ógnar grundvallarmannréttindum og kallar á aðgerðir,“ segir í tilkynningunni.
„Rétturinn til heilnæms umhverfis hefur verið í örum vexti alþjóðlega en Mannréttindasáttmáli Evrópu tryggir þó ekki sérstaklega slík réttindi. Mannréttindasáttmálinn hefur að þessu leyti ekki fylgt þróun annarra svæðisbundinna mannréttindasamninga og er ekki heldur í anda nýlegrar yfirlýsingar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlegan rétt til heilnæms umhverfis. Á fundum í Háskólanum í Reykjavík verða leiddir saman sérfræðingar á sviði mannréttinda og umhverfisréttar til að varpa ljósi á þessa stöðu og ræða hugsanlegar úrbætur. Þá verður rætt um þróun og samspil mannréttinda og réttarins til heilnæms umhverfis og hvort hægt verði að nýta það sögulega tækifæri sem felst í leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík til að stuðla að lagalegri viðurkenningu réttar til heilnæms umhverfis í Evrópu,“ segir þar einnig.