Borgin uppfyllir ekki lágmarksviðmið EFS

Reykjavíkurborg uppfyllir ekki öll lágmarksviðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.
Reykjavíkurborg uppfyllir ekki öll lágmarksviðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Reykjavíkurborg er eitt þeirra sveitarfélaga sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) segir ekki uppfylla öll lágmarksviðmið fyrir A-hluta rekstrar.

Nefndin sendi ný­verið bréf með at­huga­semd­um til 21 sveit­ar­fé­lags vegna fjár­hags­áætl­un­ar fyr­ir árið 2023.

Bréfið fór strax í gegnsætt ferli

Með A-hluta rekstrar er átt við aðalsjóð sveit­ar­fé­lags, sjóði og stofn­anir sem að öllu leyti eru rek­in fyr­ir skatt­fé sveit­ar­fé­lags­ins.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, tók við bréfinu fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

„Bréfið barst okkur frá eftirlitsnefndinni eins og mörgum sveitarfélögum í febrúar og það fór strax í mjög gegnsætt ferli,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Bréf EFS til Reykjavíkurborgar vegna fjárhagsáætlunar ársins 2023:

Hún segist hafa sent öllum borgarfulltrúum bréfið til kynningar og svo sent það strax í vinnslu hjá fjármálasviði borgarinnar.

„Það kemur svo til baka [frá fjármálasviði] inn í borgarráð og inn í borgarstjórn. Þannig að það mun ekki fara fram hjá neinum,“ segir Þórdís Lóa.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar. mbl.is/Óttar

Þurfa að uppfylla skilyrðin árið 2026

Hlutfall nettóskulda borgarinnar af tekjum eru samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 92,9%. Miðað við þær forsendur þyrfti rekstrarniðurstaða samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið að vera jákvæð en hún er neikvæð um 3,7%. Þá er framlegð samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 5,8% undir lágmarksviðmiðum EFS og veltufé frá rekstri 2,2% undir lágmarksviðmiðum.

Sveitarstjórnum er heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægis- og skuldareglu út árið 2025, samkvæmt bráðabirgðaákvæði í sveitastjórnarlögum. Eftirlitsnefndin leggur engu að síður þá skyldu á borgina, sem og önnur sveitarfélög, að árið 2026 þurfi að uppfylla skilyrðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka