„Fæddi fylgjuna bara á mitt gólf“

Fjölskyldan á Hvolsvelli að Magnúsi frátöldum sem tekur myndina. Daníel …
Fjölskyldan á Hvolsvelli að Magnúsi frátöldum sem tekur myndina. Daníel og Kristófer fagna nýrri systur sem liggur í fangi Rebekku en heimilishundurinn Blíða er einnig ný viðbót við fjölskylduna, kom fyrir mánuði. Ljósmynd/Aðsend

„Já, ég er frá Hvolsvelli og við búum þar,“ segir Rebekka Katrínardóttir um þau Magnús Haraldsson sem eiga og reka Sveitabúðina Unu þar fyrir austan en auk þess rekur Magnús leigubílaþjónustu sem heldur betur kom í góðar þarfir þegar þeir atburðir sem hér segir af gerðust í fyrrinótt, aðfaranótt þriðjudags.

Nýjasti erfinginn hafði þá boðað komu sína en fyrir eiga Rebekka og Magnús einn sjö ára son, Daníel, níu ára fóstursoninn Kristófer og Magnús á einn 22 ára þar að auki sem Einar heitir. Nú var hins vegar komið að því að færa kynjahlutföll fjölskyldunnar í jafnræðisátt með meybarni sem kom með látum.

Átta ár síðan maður gerði þetta síðast

„Ég var búin að vera með einhverjar smáhríðir í tvo daga, svona aðeins bara, það hefði svo sem alveg getað verið vika í þetta, maður vissi það ekkert,“ segir Rebekka glaðbeitt í samtali við mbl.is, komin austur aftur eftir fæðinguna eins og ekkert hafi í skorist. Ýmislegt skarst þó í á lokasprettinum þótt allt færi vel.

„Svo var það svona um hálfníu að við ákváðum að fara með strákana bara til mömmu þótt allt væri rólegt, en svo rétt fyrir tólf fór allt að verða mjög „intense“ og við ákváðum bara að drífa okkur í bæinn. Það eru nú að verða átta ár síðan ég gerði þetta síðast og maður er svo fljótur að gleyma,“ segir Rebekka og skellihlær.

Rebekka átti engra kosta völ og fæddi dóttur sína á …
Rebekka átti engra kosta völ og fæddi dóttur sína á leið niður Ártúnsbrekku þar sem margir stórviðburðir hafa orðið um árin. Ljósmynd/Aðsend

„Hvenær vorum við lögð af stað Maggi?“ spyr hún ökumanninn og þau telja það hafa verið um hálfeittleytið eftir miðnætti. Sú för hefði ekki mátt hefjast mikið síðar þar sem nýi erfinginn kom í heiminn í Ártúnsbrekkunni, á vegarkafla sem orðið hefur vettvangur margs stórviðburðarins í áranna rás.

Greip barnið áður en það fór á gólfið

„Um leið og við vorum komin upp á heiðina var mér alveg hætt að lítast á blikuna og svo þegar við erum að nálgast Ártúnsbrekkuna var ekkert annað hægt að gera en koma henni bara í heiminn,“ heldur móðirin áfram en leikar fóru svo að þeim Magnúsi fæddist dóttir á leið niður brekkuna.

„Ég finn bara kollinn, hún er að koma og Maggi segir við mig að við eigum átta mínútur eftir og ég verði að halda í mér,“ segir Rebekka en förinni var heitið á fæðingarheimilið Björkina í Síðumúla þar sem ljósmæðurnar Ásta Hlín Ólafsdóttir og Una Kristín Guðmundsdóttir biðu hjónanna, reiðubúnar að veita hefðbundna fæðingarþjónustu.

Rebekka og Magnús með dótturina eftir svaðilför frá Hvolsvelli í …
Rebekka og Magnús með dótturina eftir svaðilför frá Hvolsvelli í Síðumúla. Ljósmynd/Aðsend

„Ég greip hana bara áður en hún fór á gólfið,“ lýsir Rebekka fæðingunni en Maggi sat litverpur af skelfingu undir stýri meðan á þessu stóð. Fæðingin var að sögn Rebekku tiltölulega átakalaus en þó „rosaleg sprenging“ að hennar sögn. „Ég fékk mænudeyfingu síðast þannig að ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Það var kannski helst svona síðustu tuttugu mínúturnar, það er erfitt að útskýra þetta en það var bara svo mikill þrýstingur frekar en sársauki,“ reynir nýbökuð móðirin að útskýra fyrir karlkyns blaðamanni með takmörkuðum árangri.

Máttur bænarinnar

„Ásta tók svo á móti okkur í dyrunum, ég var auðvitað búin að vera í sambandi við þær fyrr um kvöldið. Hún sagðist aldrei hafa séð annan eins svip á nokkrum þegar við renndum í hlað og ég hélt á barninu með uppglennt augun. Svo drifum við okkur bara inn og ég fæddi fylgjuna bara á mitt gólf hjá þeim,“ segir Rebekka og hlær enn þrátt fyrir að slá út flestar bardagalýsingar Egils sögu Skallagrímssonar á einu bretti.

Sígild spurning er þá auðvitað hvernig móður og barni heilsist.

„Bara rosalega vel, við erum í göngutúr núna, fyrsta göngutúrnum, það er svo gott veður að við fengum leyfi til að fara með hana út,“ segir Rebekka en stúlkan var ellefu merkur við fæðingu og 48 sentimetrar, „lítil og fín. En ég þakka guði fyrir þetta, við erum bæði trúuð og búin að biðja mikið fyrir þessu. Við báðum um að fá hraða og góða fæðingu og fengum það,“ heldur hún áfram.

„Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað …
„Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu,“ eru kunnugleg orð úr Lúkasarguðspjalli. Rebekka og Magnús eru sanntrúuð og báðu almættið þess að fæðingin mætti ganga fljótt og vel. Varð þeim að þeirri ósk, heldur betur. Ljósmynd/Aðsend

Þau Magnús hyggjast taka því rólega næstu daga og njóta lífsins með nýju dótturinni og kveðst Rebekka aðspurð sérstaklega ánægð með frammistöðu ljósmæðra Bjarkarinnar. „Þær eru yndislegar allar þarna, við vorum búin að hitta þær allar, við höfðum planað að eiga þessa stund saman í baðkarinu hjá þeim en svo varð náttúrulega ekkert úr því. Við vorum þarna í einhverja fjóra klukkutíma og fengum æðislega fínan mat og frábæra þjónustu,“ segir Rebekka af Björkinni og atvinnufólki þar á bæ.

„Svo var það svo fyndið að þegar hún var að fylla inn upplýsingarnar sagði hún að hún ætti nú eiginlega að skrá mig sem ljósmóðurina þar sem ég tók á móti. En nú stendur í fæðingarskýrslunni að barnið hafi fæðst í Ártúnsbrekkunni,“ segir Rebekka Katrínardóttir, móðir og verslunareigandi á Hvolsvelli, að lokum, sátt við guð og menn eftir undangengna viðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert