Fyrstu tíu dagar aprílmánaðar hafa verið óvenjuhlýir. Eru þetta mikil umskipti frá marsmánuði, sem var sá kaldasti síðan árið 1979.
Meðalhiti í Reykjavík er 5,8 stig, 3,1 stigi ofan meðallags 1991-2020 og 3,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er næsthlýjasta aprílbyrjun aldarinnar í Reykjavík, að því er fram kemur í bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings. Hlýjastir voru dagarnir tíu 2014, meðalhiti 6,0 stig, en kaldastir 2021, þegar meðalhiti var aðeins -0,9 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 5. til 6. sæti yfir hlýjustu aprílmánuði. Hlýjast var 1926, meðalhiti þá 6,6 stig, en kaldast 1886, meðalhiti -4,4 stig.
Á Akureyri er meðalhitinn nú 5,6 stig, 4,4 stigum ofan meðallags 1991-2020 og 4,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á spásvæðunum er þetta hlýjasta aprílbyrjun aldarinnar, nema á Suðausturlandi þar sem hitinn er í 2. sæti og á Austfjörðum, þar sem hann er í 5. sæti yfir hlýjustu aprílmánuði.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 47 millimetrar, hátt í tvöföld meðalúrkoma.