Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt einstakling sem var grunaður um líkamsárás og eignarspjöll, en þegar flytja átti viðkomandi á lögreglustöð hrækti hann í auga lögreglumanns og skallaði lögreglumann í andlitið þegar verið var að spenna öryggisbeltið. Þá hótaði viðkomandi einnig lögreglumönnum skaða með eggvopni. Var einstaklingurinn vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar í morgun.
Lögreglan fékk einnig tilkynningu í gærkvöldi um einstakling í strætó sem var í annarlegu ástandi og æstur. Var hann fjarlægður úr vagninum, en vagnstjórinn hafði ekki uppi aðrar kröfur. Kemur fram að lögreglan hafi skutlað viðkomandi heim að viðræðum loknum.