„Hvorki keppikefli að opna dalinn né loka honum“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef Umhverfisstofnun leggur það mat á að þetta sé ekki hættulegt fyrir umhverfið né heldur þá sem fara þarna um þá reynum við að treysta því að svo sé.“

Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstóri sveitarfélagsins Ölfuss, um þau sjónarmið hvort loka beri Reykjadal vegna hættulegra aðstæðna.

Leggja traust á Umhverfisstofnun

„Við höfum farið ítrekað yfir þetta með Umhverfisstofnun og höfum sagt að við leggjum svolítið okkar traust á stofnunina í þessu.

Við áttum ítrekað gott samtal við stofnunina um páskahelgina og við fylgjumst náið með og vinnum með þeim að þessu en það er hvorki sérstakt keppikefli hjá sveitarfélaginu Ölfusi að opna dalinn né loka honum.

Keppikefli okkar er að öryggi þeirra sem þarna fari um sé tryggt og að umhverfinu beri ekki neinn skaði af,“ segir Elliði.

Reykjadalur er í Ölfusi

Geir Sveinsson, bæjarstjóri í Hveragerði, hefur kallað eftir því að Reykjadal verði lokað en bæði lögregla og Umhverfisstofnun telja ekki ástæðu til að svo stöddu.

Elliði segir Reykjadal vera í Ölfusi og að það sé óneitanlega athylgisvert að heyra önnur sveitarfélög tjá sig um lokun eða opnun á hluta af öðru sveitarfélagi.

„Við eigum í mjög góðu samstarfi við Hveragerðisbæ. Ölfusið er alltumlykjandi í Hveragerði og þau hafa talsverðra hagsmuna að gæta á ákveðnum svæðum.

Við erum mjög fegin því að vera í jákvæðum samskiptum og samstarfi við Hveragerðisbæ um þetta en minnum svona á að Reykjadalurinn er í Ölfusi og verður það um ókomna tíð,“ segir bæjarstjórinn.

Geir Sveinsson, bæjarstjóri í Hveragerði.
Geir Sveinsson, bæjarstjóri í Hveragerði. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Rætt möguleikann að opna dalinn ofan frá

Elliði segir sveitarfélagið hafa rætt við Umhverfisstofnun að það þurfi að fara yfir það til lengri tíma hvort eitthvað sé hægt að gera til að stýra umferðinni um Reykjadal.

„Í því skyni höfum við meðal annars bent á að opna fyrir aðgengi að Reykjadalnum ofan frá. Þannig að það sé hægt að keyra inn frá Kömbunum og í átt að Bitru og fara þar niður í dalinn.

Það er styttri leið og myndi þá draga talsvert mikið úr álaginu. Því fólk gæti þá annað hvort farið þarna ofan í og aftur upp úr eða farið þarna ofan í og labbað niður dalinn og að þjónustuhúsinu. Með þessu gætum við vafalaust stýrt umferðinni og dregið úr álaginu.“

Ríkið fjármagni innviði

Hann segir að fara þurfi í framkvæmdir á svæðinu og eftir atvikum að skoða gjaldtöku, af því að sveitarfélagið Ölfus hafi engar tekjur af Reykjadalnum ekki frekar en Hveragerðisbær. Hann segir Hveragerðisbæ vera með gjaldtöku á bílastæðunum sem á að fara í uppbyggingu á svæðinu.

„Hveragerði á bílastæðin en þegar þú labbar yfir ána ertu kominn yfir í Ölfusið. Samstarfið gengur vel og það er ekkert að því og hagsmunir eru sameiginlegir.“

Elliði segir ríkið vera landeigandann og því eðlilegt að það fjármagni innviðaframkvæmdir eða það verði hrein og klár gjaldtaka fyrir að fara í Reykjadalinn. Hann segir Ölfus eingöngu fara með skipulagsvaldið.

Skoða lokun yfir mesta leysingatímann

„Við höfum verið í mikilli uppbyggingu þarna á seinustu árum og Reykjadalur ræður orðið mikið betur við þetta en hann gerði. Það er búið að setja palla, brýr og aðstöðu fyrir fólk sem er að baða sig.“

En þarf ekki að fara í framkvæmdir svo dalurinn dreni sig betur? 

„Jú og jafnvel, þetta kemur alltaf upp á sama tíma. Þetta er á vorin þegar leysingar eru mestar. Það er ekkert óeðlilegt að skoða lokun á dalnum yfir þennan tíma,“ segir Elliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert