Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru að verða 250 þúsund talsins í fyrsta sinn í sögunni. Að óbreyttu verður þeim fjölda náð á næstu vikum. Þá voru Garðbæingar nákvæmlega 19 þúsund talsins hinn 1. apríl síðastliðinn, samkvæmt tölum Þjóðskrár, og hefur því fjölgað ört síðustu ár.
Þjóðskrá Íslands birtir reglulega uppfærðar upplýsingar um íbúafjölda í sveitarfélögum landsins.
Nýjar tölur fyrir höfuðborgarsvæðið eru endurgerðar á grafinu hér fyrir ofan.
Athygli vekur að Kópavogur hefur rofið 40 þúsund íbúa markið. Þar bjuggu 40.018 íbúar 1. apríl eða 221 fleiri en 1. desember síðastliðinn.
Þá nálgast Hafnarfjörður 31 þúsund íbúa og í Mosfellsbæ búa nú ríflega 13.500 manns.
Alls voru 390.753 íbúar búsettir á landinu í byrjun þessa mánaðar og sem fyrr segir 249.223 á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall höfuðborgarsvæðisins af íbúafjölda landsins er því orðið 63,78%.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.