Matvælastofnun mun senda lögreglustjóranum á Austurlandi bréf þar sem farið verður fram á opinbera rannsókn tildraga þess að fimm kettlingar fundust dauðir í læk á Eskifirði í mars. Þetta staðfestir Einar Örn Thorlacius, lögfræðingur stofnunarinnar.
„Matvælastofnun lítur þetta mál mjög alvarlegum augum,“ segir Einar og bendir á að MAST sé heimilt samkvæmt dýravelferðarlögum að leggja á stjórnvaldssektir fyrir brot gegn lögunum.
Geti þær numið upphæðum allt frá tíu þúsund krónum og upp í eina milljón.
„Þá er Matvælastofnun einnig heimilt að kæra mál til lögreglu og reyndar skylt ef brot telst meiri háttar. Enginn getur kært brot á dýravelferðarlögum til lögreglu nema Matvælastofnun. Stofnunin metur hverju sinni hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldssekt hjá stofnuninni,“ útskýrir Einar.
Í þessu tiltekna máli hafi verið ákveðið að kæra það til lögreglu þar sem lögregla hafi víðtækari rannsóknarheimildir en MAST, geti til að mynda boðað fólk til yfirheyrslu með valdi. „Leiði það til ákæru hjá lögreglu varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári ef sök sannast og dómur fellur,“ segir Einar.
Fram kemur í dýravelferðarlögum að óheimilt sé að aflífa dýr með því að drekkja þeim. Eina undantekningin frá þessu banni snúi að gildruveiði á minkum. „Fram kemur í fyrirliggjandi krufningarskýrslu að drukknun sé líklegasta orsök dauða þessara fimm kettlinga. Að þeim hafi sem sagt verið drekkt,“ heldur hann áfram.
Lögfræðingurinn er spurður út í tölfræði málaflokksins.
„Það liggur fyrir að á árunum 2016 til 2022 sendi Matvælastofnun 28 stjórnvaldssektir til innheimtu, kærði 13 mál til lögreglu, sendi umráðamönnum dýra 26 viðvaranir, lagði á dagsektir í yfir 100 skipti og fór í samtals 19 vörslusviptingar. Stofnunin hefur því töluvert umleikis á þessu sviði,“ segir hann frá.
„Því miður er algengast að lögregla felli niður þau mál sem Matvælastofnun kærir til hennar vegna þess að ólíklegt telst að saksókn leiði til sakfellingar eða þá að mál upplýsast ekki. Nokkrir refsidómar liggja þó fyrir og er skemmst að minnast dóms sem féll hjá Héraðsdómi Vesturlands 13. október 2022 gegn bónda á Vesturlandi sem svelti bústofn sinn til bana,“ segir Einar Örn Thorlacius, lögfræðingur MAST, að lokum.